Gegn skuldasöfnunaráráttu

DA-samtökin, Debtors Anonymous eða nafnlausir skuldarar kynna starfsemi samtakanna í næstu viku.

Félagsmiðstöð Geðhjálpar hefur fengið samtökin til að kynna starfsemi sína en undanfarna miðvikudaga hefur félagsmiðstöð Geðhjálpar fengið fólk til að deila reynslu sinni af ýmis konar 12 spora samtökum. Næstkomandi miðvikudag er röðin komin að DA samtökunum.

DA samtökin hafa starfað í nokkur ár og byggja á 12 spora kerfinu, líkt og AA samtökin, Alcoholics Anonymous. DA samtökin eru félagsskapur karla og kvenna, sem deila reynslu sinni, styrk og von með hvert öðru, svo þau megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og hjálpa öðrum til að ná bata frá því sem DA kallar hömlulausa skuldasöfnun.

Fundir DA-samtakanna eru tvisvar í viku; á föstudögum í AA-húsinu við Digranesveg 12 í Kópavogi milli kl. 18 og 19 og í Rúgbrauðsgerðinni í Borgartúni á sunnudögum milli kl. 11 og 12.

DA-samtökin leggja áherslu á að fólk taki ekki lán heldur að það lifi í núinu, safni frekar sjóðum fyrir því sem kaupa á.

„DA-samtökin leggja áherslu á að fólk nái jafnvægi, setji upp þarfaplan. Oft er það þannig með skuldara að þeir ætla að taka til hendinni og greiða allar skuldir en gleyma því að þeir þurfa líka að lifa. Oftar en ekki falla þeir á fyrstu dögum sem ætla að taka með þessum hætti á sínum vanda,“ segir Sigríður Jónsdóttir, forstöðumaður félagsmiðstöðvar Geðhjálpar.

Þegar fólk mætir á fund DA-samtakanna og vill taka á vandanum þá er fyrsta skrefið að viðurkenna vandann og vera meðvitaður um neysluna. Gott er að taka saman allar nótur, stórar og smáar og skrá niður neysluna. Viðkomandi getur síðan farið á svokallaðan álagslosunarfund, hitt tvo félaga úr DA-samtökunum og farið yfir hlutina. Ástand þeirra sem leita til samtakanna er mjög mismunandi. Sumir hafa ekki skilað skattskýrslum, ræða ekki við lánardrottna og oft er flóttinn algjör. Það þarf því að koma upp framkvæmdaplani.

Engar tölur liggja fyrir um hve margir starfa með DA-samtökunum, enda engin félagaskrá eða annað utanumhald, frekar en í öðrum 12 spora samtökum. En þörfin er umtalsverð.

„Mér er sagt að þeir sem leita aðstoðar hjá DA-samtökunum séu oft mjög djúpt sokknir, skuldi mörg hundruð þúsund í kreditkort, námslán eða til fjölskyldumeðlima og finnist að lífið sé orðið óviðráðanlegt. Óhófleg skuldasöfnun hefur alvarleg áhrif á fjárhagsleg, tilfinningaleg, andleg, líkamleg og félagsleg gæði lífs viðkomandi einstaklings. Fólk getur verið kvíðið, það getur verið komið á þann stað að það vinnur langt undir getu. Það lifir í stöðugum ótta, opnar jafnvel ekki póstinn sinn og skömmin getur orðið yfirþyrmandi. Fólk forðast að tala um fjármál eða taka þátt í slíkum umræðum. Fjármálin geta því stjórnað algjörlega lífi viðkomandi sem fyrir vikið gerir lítið eða ekkert fyrir sjálfan sig,“ segir forstöðumaður félagsmiðstöðvar Geðhjálpar.

Kynningarfundur DA-samtakanna verður í félagsmiðstöð Geðhjálpar við Túngötu miðvikudaginn 1. apríl klukkan 13.

Heimasíða DA-samtakanna

Heimasíða Geðhjálpar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert