Miklar vonir bundnar við ferðaþjónustu

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra mbl.is/RAX

„Ferðaþjónustan er orðin meðal höfuðatvinnuvega landsins og eftir banka- og gjaldeyrishrun er hún meðal þeirra þriggja atvinnuvega sem helst eru bundnar vonir við í tekju- og gjaldeyrissköpun fyrir þjóðina,“ sagði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra í ræðu á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar sem settur var á Grand Hótel nú í hádeginu.

Össur sagði að vel mætti rökstyðja að það væri góð fjárfesting af hálfu ríkisins að verja meira fé til ferðamála, en það sé þó staðreynd að aldrei hafi, á föstu verðlagi, verið veitt meira fé til ferðamála af hálfu Alþingis og nú því ríflega milljarði króna sé í ár veitt til ferðamála.  Þar af eru m.a. 200 milljónir af yfirstandandi byggðaáætlun sem eyrnamerktar eru þróun og nýsköpun ferðaþjónustu, enda ljóst að ein af þremur megináherslum byggðaáætlunar næstu 4 árin verður uppbygging á ferðamálum.

Þá er þess að vænta á næstunni að endurskipulagnin í markaðsmálum ferðaþjónustunnar komi til framkvæmda að sögn Össurar. Meðal annars í stórauknu samstarfi Ferðamálastofu, útflutningsráðs og utanríkisráðuneytisins skv. samkomulagi sem skrifað var undir í gær. „Samstarfssamningurinn er í raun undanfari Íslandsstofu sem væntanlega kemst á laggirnar á næsta ári,“ sagði Össur og vísaði þar í frumvarp sem hann lagði nýlega fram í ríkisstjórn.

„Ég tel að hér sé um talsverðan áfanga að ræða. Okkur hefur í sameiningu tekist að leggja línurnar fyrir nýtt skipulag í markaðs- og landkynningarmálum ferðaþjónustunnar erlendis sem innanlands.  Og við höfum náð saman um Íslandsstofu sem sameiginlegan framkvæmdavettvang þeirra sem starfa að landkynningu og markaðsmálum í þágu íslensks atvinnulífs og ímyndar Íslands erlendis,“ sagði Össur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka