Mistökin voru Sjálfstæðisflokksins

Landsfundargestir á fundi Sjálfstæðisflokksins.
Landsfundargestir á fundi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Sjálfstæðisflokkurinn ber óhjákvæmilega mikla ábyrgð á þeim mistökum sem voru gerð í landsstjórninni,“ sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og formaður Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins, þegar hann kynnti niðurstöður nefndarinnar á landsfundi flokksins.

Vilhjálmur lagði áherslu á að flokkurinn  bæðist afsökunar á mistökum sínum, enda hefði það endurspeglast í ræðu Geirs H. Haarde formanns. Hann lagði áherslu á að kjörnir meðlimir flokksins beittu sér ekki í bönkum og öðrum fyrirtækjum á vegum ríkisins.

Burt með fyrirgreiðslupólitíkina
„Við skulum segja hreint út að við afnemum fyrirgreiðslupólitík að þessu leyti,“ sagði Vilhjálmur.  Hann rifjaði upp fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur á Alþingi til Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra um hvort Össur hefði beitt sér fyrir fyrirgreiðslu handa Jóni Ólafssyni athafnamanni í bönkunum. Hann velti því fyrir sér hvað hefði vakað fyrir Siv með fyrirspurninni. Sagði að fyrirspurnin ein og sér endurspeglaði á hvaða stigi umræðan væri.

Vextirnir eru að kæfa fyrirtækin í landinu
Vilhjálmur sagði að störfum yrði ekki fjölgað með sköttum. Hann lagði líka áherslu á lækkun stýrivaxta og var harðorður á vaxtastefnu Seðlabankans. „Það er enginn heilbrigður rekstur sem þolir þá vexti sem eru á Íslandi í dag. Vextirnir eru að kæfa fyrirtækin í landinu. Þetta er eitt mikilvægasta atriðið til þess að skapa atvinnu.“ Hann sagði að sátt þyrfti að nást um nýtingu orkuauðlinda og að passa þyrfti upp á að hagsmunum Íslands yrði fylgt eftir í samningum um loftslagsmál. Hann sagði að afnema þyrfti ýmsa mismunum í nýsköpunarkerfinu.

Vilhjálmur lagði áherslu á viðhorfsbreytingu í atvinnulífinu. Íslendingar þyrftu að þora á nýjan leik. Fyrirtæki þyrftu að sýna djörfung og þora að fjárfesta. „Það skiptir máli að við Íslendingar þorum,“ sagði Vilhjálmur.

Erlent eignarhald á bönkunum
Athygli vekur að í ályktun flokksins um endurreisnina er lögð áhersla á erlenda eignaraðild á bönkunum, en Vilhjálmur sjálfur hefur viðrað þessa hugmynd í fjölmiðlum.

Nefndin vill einnig að auknu fé verði varið til þess að að bæta ímynd Íslands erlendis og að utanríkisþjónustan einbeiti sér að þessu. Er talað um „markaðsfé“ í tillögum nefndarinnar en þær verða ekki skildar öðruvísi en að verið sé að vísa til skattfjár.  

Sjálfstæðurflokkurinn biðst afsökunar
Landsfundurinn samþykkti með miklum meirihluta greiddra atkvæða ályktun um endurreisn atvinnulífsins. Þar segir að rekja megi ýmsar ástæður fyrir áfallinu, þ.e hruns fjármálakerfisins, til stjórnvalda, hvort heldur til ríkisstjórnar, löggjafarvaldsins eða stofnana ríkisins. Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í ríkisstjórn og löngum í forystuhlutverki á uppgangstímanum og þegar áfallið varð. „Af því leiðir að Sjálfstæðisflokkurinn ber óhjákvæmilega mikla ábyrgð á þeim mistökum.[...] Sjálfstæðisflokkurinn axlar ábyrgð og biðst afsökunar á því sem miður fór en hann átti að gera betur,“ segir í ályktuninni.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á eftirtalin atriði til þess að endurreisa íslenskt atvinnulíf og tryggja samkeppnishæfni þess: 

  1. Lækkun vaxta og afnám gjaldeyrishafta
  2. Endurreisn bankakerfisins með erlendri eignaraðild og áherslu á heilbrigðan rekstur.
  3. Uppbygginu hlutabréfamarkaðar á grundvelli skynsemi, skilvirkni og gegnsæi.
  4. Skattalaga hvata til framtaks og vaxtar alþjóðlegra samkeppnishæfra fyrirtækja.
  5. Markaðsfé til kynningar á Íslandi sé forgangsraðað og utanríkisþjónustan einbeiti sér að því að bæta ímynd Íslands erlendis.
  6. Sátt verði um að nýta orkulindir og aðrar auðlindir þjóðarinnar út frá langtímasjónarmiðum henni til hagsbóta.
  7. Hagsmunum Íslands verði fylgt fast eftir í alþjóðlegum samningum um loftslagsmál m.a með framlengdum gildistíma íslenska ákvæðisins.
  8. Afnámi mismununar gagnvart hugmyndum sem ekki byggja á tækninýjungum innan stuðningskerfis nýsköpunar og áhersla lögð á verðmætasköpum vegna góðra hugmynda almennings jafnt og nýrrar tækni.
  9. Faglegri stjórnsýslu sem stendur við tímasetningar við afgreiðslu mála og eftirlitsstofnanir með markvissri forgangsröðun og virkri kostnaðarvitund fyrir samfélagið í heild.
  10. Sveitarfélög í nægilega stórum og hagkvæmum einingum sem eru ábyrg í fjármálum og nýta tekjur af eignasölu til niðurgreiðslu skulda og fjárfestinga en ekki til rekstrar.
  11. Uppbyggingu alþjóðlegra samkeppnishæfra fyrirtækja jafnt á landsbyggðinni sem á höfuðborgarsvæðinu sem eru virk í nýsköpun og atvinnusókn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka