Niðurfelling skulda óhagkvæm

Kostnaður við 20% flata niðurfellingu húsnæðisskulda heimila væri um 285 milljarðar ef lífeyrissjóðslán eru meðtalin.  Kostnaður við  4 milljóna króna niðurfellingu húsnæðisskulda á hvert heimili væri enn dýrari og myndi kosta um 320 milljarða króna, að mati Seðlabankans.

Seðlabankinn segir, að til að setja þessar tölur í samhengi  næmu þær um 20% af vergri landsframleiðslu, um 45% af heildarútgjöldum hins opinbera á síðasta ári eða ríflega tvöföldum heildarútgjöldum til heilbrigðismála í fyrra. Þegar við bætist 20% afskrift fyrirtækjaskulda gæti heildarkostnaðurinn numið allt að 900 milljarðar króna.

Fram kemur í skýrslu starfshóps Seðlabankans um skuldir heimila, að flöt
niðurfelling húsnæðisskulda hafi ólík áhrif á mismunandi hópa. Meðalheimilið fær afskrifaðar 3,2 milljónir þar sem meðalhúsnæðisskuldin
er um 16 milljónir. Um 73% heimila eða 57 þúsund heimili í  gagnagrunninum eru með húsnæðisskuldir undir 20 milljónum og fengi að hámarki 4 milljóna króna niðurfellingu samkvæmt 20% leiðinni.

Eitt af hverjum sex heimilum eða tæplega 13 þúsund gætu fengið á bilinu 4-6 milljónir. Tæplega 6000 heimili fengju á bilinu 6-10 milljónir afskrifaðar. Tæplega 2500 heimili fengju afskrifaðar á bilinu 10-30 milljónir. Á annað hundrað heimila fengi meira en 30 milljónir afskrifaðar en fyrir stærsta hluta þess hóps yrði það ekki nægjanlegt til að koma þeim nálægt því að vera í jákvæðri eiginfjárstöðu. 

Þá segir starfshópurinn, að þegar 4 milljóna króna afskrifta leiðin sé skoðuð komi í ljóst, að stærri hluti heildarafskrifta færi til heimila með jákvæðustu eiginfjárstöðuna í húsnæði en samkvæmt 20% leiðinni.
Best setti hópurinn, sem er með meira en 20 milljónir í jákvæðri
eiginfjárstöðu, fengi 70 milljarða króna samtals samkvæmt þessari leið í stað 41 milljarðs króna samkvæmt 20% leiðinni.

Heimilin í þröngri eiginfjárstöðu sem eru 31.600 talsins fengju 126 milljarða króna stað 139 milljarða samkvæmt 20% leiðinni. Verst settu heimilin, sem eru með meira en 5 milljónir í neikvæðu eigin fé í húsnæði fengju 20 milljarða eða minna í heild en hópurinn sem er eignamikill.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert