Stjórn Framsýnar stéttarfélags hefur ákveðið að óska eftir lögfræðiáliti á ákvörðun samninganefnda ASÍ og SA að fresta boðuðum launahækkunum 1. mars 2009.
Á stjórnarfundi Framsýnar í gær var samþykkt að óska eftir lögfræðiálitinu. Í samkomulagi aðila sem undirritað var 25. febrúar sl. kemur ekki fram, hvort eða hvenær, samningsbundnar hækkanir komi til framkvæmda. Þess í stað ætla samningsaðilar að setjast aftur yfir málið í júní og meta stöðuna hvort svigrúm verði þá til frekari launahækkana.
Stjórn Framsýnar dregur mjög í efa að Samninganefnd ASÍ og Samtök atvinnulífsins hafi haft heimild til að fresta eða jafnvel fella niður áður samþykktar kjarasamningsbundnar launahækkanir. Ákvæði 26. kafla kjarasamnings aðila heimili það ekki.
Framsýn bendir á að launahækkanirnar voru undirritaðar af samningsaðilum í febrúar 2008 og fóru auk þess í formlega atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarfélaga samningsins.
Því verði hins vegar ekki andmælt að forsendunefnd samningsaðila og þá samninganefndir SA og ASÍ hafi heimild til að ákveða með hvaða hætti skuli tryggja framgang samningsins. Framgangur samningsins geti varla falist í því að skerða áður samþykktar launahækkanir.
Framsýn telur hins vegar að samningaaðilar hafi væntanlega fulla heimild til að meta með hvaða hætti skuli fara með þær viðbótarhækkanir sem ættu að koma til um þessar mundir þar sem ekki er ágreiningur um að forsendur samningsins séu löngu brostnar.