Ummæli nýs stjórnarmanns í VR áhyggjuefni

Stefanía Magnúsdóttir, varaformaður VR, segir það áhyggjuefni þegar nýkjörinn stjórnarmaður í stéttarfélagi gefi í skyn í blaðaviðtali að stéttarfélag eigi ekki að heiðra samning um launakjör. Er Stefanía þar að vísa til ummæla Bjarka Steingrímssonar, stjórnarmanns í VR, í DV í dag.

Fram kom í DV í dag að Gunnar Páll Pálsson, fráfarandi formaður VR, haldi launum í sex mánuði eftir að hann lætur af störfum.  Haft er eftir Bjarka, að hann sé ósáttur við þetta og segir að starfslokasamningar séu liðin tíð. Ný stjórn hafi ekki komið nálægt þessu og það sé krafa hennar, að farið verði eftir gildandi kjarasamningum en sérstakir samningar verði ekki gerðir. „Fráfarandi stjórn leggur þetta til en við neitum alfarið að taka þátt í þessu," segir Bjarki.

Stefanía Magnúsdóttir hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins og segir, að Gunnar Páll Pálsson, hafi gegnt starfi formanns og verið framkvæmdastjóri félagsins síðastliðin sjö ár.

„Þegar hann tók við var gerður við hann samningur um launakjör. Í þeim samningi var kveðið á um sex mánaða uppsagnarfrest. VR mun að sjálfsögðu heiðra þann samning, rétt eins og félagið heiðrar samninga sem gerðir eru við aðra starfsmenn.
 
Það hlýtur að vera áhyggjuefni þegar nýkjörinn stjórnarmaður í stéttarfélagi gefur í skyn í blaðaviðtali að stéttarfélag eigi ekki að heiðra samning um launakjör. Það er illa komið fyrir verkalýðsfélagi ef það stendur ekki við gerða samninga við sína eigin starfsmenn," segir Stefanía.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert