Stór sending af húsgögnum var stöðvuð af tollinum í kringum síðustu áramót. Vörurnar fylltu tvo og hálfan flutningagám. Í sendingunni voru eftirlíkingar af þekktum húsgögnum frægra hönnuða. Aðallega var um að ræða stóla og sófa en einnig lampa. Þetta er langstærsta sending af falsvöru sem hefur verið stöðvuð við innflutning hingað.
Nýlega var 5,3 tonnum af húsgögnum úr sendingunni eytt að kröfu rétthafa að hönnuninni sem smíðað var eftir. Helgi Þór Þorsteinsson hdl. sagði að sendingin hefði verið stöðvuð vegna ábendingar frá rétthafa.
Hörður D. Harðarson yfirtollvörður segir að tollgæslan sé orðin árvökulli en áður gagnvart hugverkafölsunum. Tollgæsla víða um heim hafi áhyggjur af fölsuðum neytendavörum sem geti verið lífshættulegar.
Eyjólfur Pálsson í EPAL segir ánægjulegt að sjá að tollurinn vinni sína vinnu á þessu sviði.