Lögregla rannsakar meint kynferðisbrot starfsmanns á meðferðarheimili á Norðurlandi gegn unglingsstúlku á heimilinu. Manninum, sem er á fertugsaldri, hefur verið vikið frá störfum meðan málið er í rannsókn. Þessi sami starfsmaður var sakaður um hliðstætt brot á meðferðarheimilinu fyrir um ári. Rannsókn á því máli leiddi ekki til ákæru heldur var málið fellt niður á rannsóknarstigi.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, staðfesti í gær að rannsókn færi nú fram en vildi ekki tjá sig efnislega um seinna málið þar sem rannsókn væri á frumstigi. „Það eru starfsreglur Barnaverndarstofu að þegar barn greinir frá kynferðisbroti er þegar í stað óskað eftir lögreglurannsókn og var það gert í báðum tilvikum af hálfu barnaverndaryfirvalda,“ segir Bragi. Við þær aðstæður er viðkomandi vikið frá störfum þar til rannsókn máls er lokið.
Í fyrra málinu var um tvær stúlkur að ræða og greindi önnur þeirra frá kynferðisbroti, að sögn Braga. Rekstraraðili meðferðarheimilisins taldi ekki að lög stæðu til uppsagnar og taldi minni líkur en meiri á að maðurinn hefði til sakar unnið. Að mati rekstraraðilans væri flutningur í starfi fullnægjandi varúðarráðstöfun.
Umrætt meðferðarheimili er einkarekið en er með þjónustusamning við Barnaverndarstofu. Bragi segir að ákvörðun um að hafa viðkomandi starfsmann áfram í vinnu hafi verið tekin af rekstraraðilanum en Barnaverndarstofa hafi fylgst með framvindu málsins. „Við treystum okkur ekki til að gefa fyrirmæli um uppsögn þessa starfsmanns miðað við þær upplýsingar sem fyrir lágu,“ sagði Bragi en hann hefur dvalið norðanlands síðustu daga til að fara yfir málið.