Reykjavíkurborg hefur hlotið verðlaun alþjóðasamtaka miðborgarstjórna „The Assciation of Town Centre Management“ (ATCM) fyrir frábæran árangur við hreinsun og endurreisn miðborgarinnar á síðastliðnu ári.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, verðlaunin í senn viðurkenningu og hvatningu til borgarinnar ti láframhaldandi góðra verka.„Þessi verðlaun eru mikilvæg fyrir Reykjavík og ánægjuleg staðfesting þeirra mörgu verka sem borgaryfirvöld hafa á undanförnum árum hrint í framkvæmd í þágu miðborgarinnar. Við munum halda áfram að vinna í þessum anda og gera miðborgina okkar að enn betri stað fyrir íbúa, ferðamenn og hagsmunaaðila,“ sagði Hanna Birna.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir jafnframt að við val verðlaunahafa hafi verið tekið tillit til þess hve áþreifanlegur árangur varð af sameinuðu átaki borgarstarfsmanna og sérstaklega sjálfboðaliða við að endurreisa hreina ásýnd Laugavegar og nærliggjandi gatna á síðasta ári. Auk þess var nærvera og samstarf miðborgarþjóna við lögregluyfirvöld talin hafa skipt sköpum og stuðlað að aukinni öryggistilfinningu og bættri umferðastjórnun úr miðborginni að næturlagi um helgar.