Vilhjálmur: Ummæli Davíðs ómakleg

Vilhjálmur Egilsson ásamt Geir H. Haarde á landsfundinum í Laugardalshöll.
Vilhjálmur Egilsson ásamt Geir H. Haarde á landsfundinum í Laugardalshöll. mbl.is/Heiddi

„Mér finnst þessi ummæli almennt séð mjög ómakleg, ekki bara í minn garð heldur líka í garð þessara 80 einstaklinga sem voru virkir í vinnuhópunum og tóku að sér að skrifa þetta rit,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og formaður Endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins, um ummæli Davíðs Oddssonar í sinn garð í ræðu sem Davíð flutti á landsfundi fyrr í dag.

Blaðamaður náði tali af Vilhjálmi í Laugardalshöll. „Þessi einkunn sem hann gefur öllu þessu fólki finnst mér ómakleg. Þetta kom mér á óvart en þetta setur mig ekkert úr jafnvægi,“ segir Vilhjálmur. Aðspurður segir Vilhjálmur að Davíð hafi ekki rætt við sig um tillögur nefndarinnar. Hann hafi valið þessa leið til að segja sína skoðun.  

„Það er líka ákveðinn misskilningur (hjá Davíð innsk.blaðam) að tillagan um siðanefndina, um að hún verði sett á laggirnar, það er ekkert farið af stað. Það er að koma ný forysta og ný miðstjórn í Sjálfstæðisflokknum og hún setur það starf allt í gang,“ segir Vilhjálmur.

„Mennirnir sem hann nefndi voru forystumenn í atvinnulífinu. Þeir stóðu fyrir öflugum fyrirtækjum sem voru hlutar af Samtökum atvinnulífsins, eins og fjöldi annarra fyrirtækja. Þessi fyrirtæki voru ekki í sérstökum meirihluta í Samtökum atvinnulífsins,“ segir Vilhjálmur.  

Notaði sama orðalag og Sigurður Einarsson

Davíð sagði í ræðunni að það væri ekki trúverðugt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að láta þann mann, sem Hreiðar Már Sigurðsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hefðu fengið til þess að stýra Samtökum atvinnulífsins, hlutast til um smíði nýrra siðareglna fyrir flokkinn. Davíð sagði jafnframt að skýrsla Endurreisnarnefndar væri „illa skrifað plagg“ og notaði þar sömu orð og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, notaði um minnisblað Seðlabankans sem tekið var saman í febrúar  í fyrra vegna fundar sem Davíð sat með erlendum bankamönnum.

Ræða Davíðs Oddssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert