Hópur fólks kom saman á Lækjartorgi í Reykjavík í dag til að mótmæla meðferð íslenskra stjórnvalda á hælisleitendum á Íslandi. Var tilefnið það, að í síðustu viku átti að senda fimm hælisleitendur aftur til Grikklands. Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, ákvað hins vegar að því yrði frestað að senda fólkið úr landi á meðan mál þeirra yrði kannað nánar.
Fram kemur í tilkynningu frá þeim, sem stóðu fyrir mótmælunum, að eftir fundinn hafi verið haldið heim til dómsmálaráðherra, sem ræddi við mótmælendur. Var ákveðið að halda fund um málið í fyrramálið.