Rétt viðbrögð skiptu sköpum

Björgunarmenn sjást hér þar sem fólkið gróf sig í fönn, …
Björgunarmenn sjást hér þar sem fólkið gróf sig í fönn, í miklum snjó.

„Hópurinn brást rétt við aðstæðum eftir óhappið og það var það sem skipti sköpum,“ segir Jón Gauti Jónsson, fjallaleiðsögumaður tólf manna hópsins sem lenti í hremmingum á niðurleið við Skessuhorn í gær þegar kona úr hópnum datt og rann meðvitundarlaus niður um 100 til 150 metra leið.

Jón Gauti fór á eftir konunni og náði að bjarga því að hún rynni lengra. Eftir að neyðarkall hafði verið sent, og björgunarsveitir kallaðar út til hjálpar, vann hópurinn saman að því að tryggja sem best öryggi konunnar sem var slösuð, meðal annars með því að grafa sig í fönn til að komast í skjól fyrir vindi og skafrenningi til að halda á henni hita. „Veðrið þarna upp við hrygginn í 800 metra hæð versnaði um það leiti sem óhappið átti sér stað en var þó fyrst og fremst erfitt vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem við vorum komin í. Það var logn á svæðinu framan af en síðan hvessti eftir því sem líða tók á ferðina,“ sagði Jón Gauti.

Um 120 manns tóku þátt í björgunaraðgerðum á svæðinu. Meðal annars á snjóbílum, jeppum og vélsleðum, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar flutti konuna á Landsspítalann eftir að hún hafði verið flutt á sléttlendi neðan við bratta hlíðina. „Þetta var einvala lið björgunarsveitamanna sem kom að hverjum þætti björgunarinnar og unun á að horfa hve allt gekk fumlaust fyrir sig. Í mesta brattanum voru undanfarar - sérþjálfaðir fjallabjörgunarmenn - í lykilhlutverki við að koma konunni á börur ofarlega á fjallinu og slaka þeim síðan niður mesta brattan. Þar fyrir neðan beið herskari öflugra vélsleðamanna og var börunum ásamt sjúkraflutningamanni komið fyrir á lokuðum vagni aftan í sleða sem flutti sjúklinginn um kílómeters langa leið þar sem heitur snjóbíll með lækni og nauðsynlegustu græjum beið. Í snjóbílnum var hlúð að sjúklingnum þar til þyrlan kom á svæðið. Vegna snjókófs treystu þyrluflugmenn sér þó ekki til að lenda og var þá brugðið á það ráð að hífa konuna upp í þyrluna þar sem annar læknir tók á móti henni. Það sýndi sig glögglega við þessar erfiðu aðstæður hvað björgunarsveitir eiga fjölhæfum mannskap á að skipa því útilokað hefði verið fyrir fámennan sérhæfðan hóp að ljúka þessu verkefni,“ segir Jón Gauti og vill við þetta tækifæri koma á framfæri þakklæti til allra sem að málinu komu í gærdag.

Hópurinn sem Jón Gauti var með hefur oft farið í krefjandi fjallgöngur. Hann hefur sjálfur mikla reynslu af fjallaferðum og var um árabil í undanfarasveit Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. „Hópurinn sem ég var með í gær og kallast Toppfarar (www.toppfarar.is) hefur orðið mikla útivistarreynslu. Á síðustu tveimur árum höfum við lent í alls konar veðrum og einstaklingar hópsins orðnir ýmsu vanir. Við höfum margoft lent í erfiðari aðstæðum en voru á fjallinu í gær, en óhöpp gera ekki boð á undan sér. Ég tel að við höfum brugðist rétt við aðstæðum. En auðvitað reyndi þetta á alla, og það er þreyta í manni í dag.“

Jón Gauti segir að ekki hafi verið snjóflóðahættu á svæðinu þar sem hópurinn var á göngu, eftir hefðbundinni gönguleið á fjallið. „Það var hins vegar snjókoma og skafrenningur og því má reikna með að snjóflóðahætta á afmörkuðum svæðum hafi aukist þegar leið á daginn.“

Konan sem slasaðist í ferðinni liggur enn á gjörgæsludeild, en líðan hennar er eftir atvikum.

Þyrla bíður þess að geta aðstoðað, við fjallsrætur.
Þyrla bíður þess að geta aðstoðað, við fjallsrætur. Morgunblaðið/Pétur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert