„Vissulega er staða sjávarútvegsfyrirtækja erfið, og víða slæm, en samt er ég viss um að skuldastaðan er ekki eins slæm og haldið hefur verið fram,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.
Hann hefur gert sjálfstæða rannsókn á skuldastöðu sjávarútvegsfyrirtækja, það er þeirra sem eru með 62 prósent af veiðiheimildum innan sinna vébanda. Samkvæmt hans mati eru heildarskuldirnar rúmlega 400 milljarðar, uppreiknað, með skuldum vegna gjaldmiðlaskiptasamninga. Þær eru taldar vera um 30 milljarðar króna.
Þetta er um 20 prósent lægri upphæð en tekin hefur verið saman í bankakerfinu, meðal annars hjá Seðlabanka Íslands, við fyrirspurnum um þessi mál.
Aðspurður hvora töluna Sigurgeir telji rétta segist hann telja að skuldirnar hjá bönkunum séu ofmældar. „Ég held að skuldirnar séu minni. Menn hafa verið að telja til skuldir sem ekki tilheyra íslenskum sjávarútvegi. Meðal annars geta þar verið inni skuldir eignarhaldsfélaga sem eru eigendur sjávarútvegsfyrirtækja. Allar fjárfestingar þeirra þurfa hins vegar ekki að tengjast sjávarútvegi. Þær geta til dæmis tengst hlutabréfakaupum,“ segir Sigurgeir.
Margir eigendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa á undanförnum árum verið nokkuð stórtækir á hlutabréfamarkaði. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fyrir hversu mikið félög sem ráða yfir veiðiheimildum hafa keypt af hlutabréfum, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins nema þær tugmilljörðum króna. Bæði í Landsbankanum og Glitni voru umsvifamikil félög í sjávarútvegi á meðal 20 stærstu hluthafa í bönkunum, þegar þeir féllu í október, svo dæmi séu tekin.
Fall bankanna hefur því haft umtalsverð bein áhrif á fjárhag eigenda stórra sjávarútvegsfyrirtækja hér á landi.