Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir að umfjöllun í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um að raunveruleg staða lífeyrissjóðanna sé mun veikari en opinberar tölur gefi til kynna, eigi ekki við um stöðu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Afskriftir hafi verið færðar með varfærnum hætti.
Í yfirlýsingunni gerir Þorgeir einnig grein fyrir boðsferðum sem fulltrúar sjóðsins hafa farið. Þar kemur fram, að á árunum 2005 til og með 2008 hafi forstjóri og starfsmenn eignastýringar LV alls tekið þátt í fjórtán kynnisferðum fyrirtækja. Þar af tók forstjóri sjóðsins þátt í átta ferðum á umræddu fjögurra ára tímabili. Ferðirnar voru flestar tveggja til þriggja daga vinnuferðir.
Yfirlýsinginn er eftirfarandi:
„Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu, sunnudaginn 29. mars 2009, er umfjöllun sem lýtur að því að raunveruleg staða lífeyrissjóðanna sé mun veikari en opinberar tölur gefa til kynna. Sú umfjöllun sem þar kemur fram á ekki við um stöðu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Því til áréttingar er athygli vakin á því að við áramótauppgjör, sem staðfest hefur verið af endurskoðanda og stjórn sjóðsins, var eign sjóðsins í fyrirtækjaskuldabréfum metin með varfærnum hætti og færð verulega niður eins og tölur í eftirfarandi umfjöllun bera með sér. Hvað eign í erlendum skuldabréfum varðar þá er hún óveruleg í hlutfalli af eignum sjóðsins og alfarið í formi eignar í erlendum skuldabréfasjóði sem fjárfestir í dreifðu safni erlendra ríkisskuldabréfa. Metin áhrif þeirra áfalla sem dunið hafa á síðan um áramót með falli Straums, SPRON og Sparisjóðabankans leiða til þess að áætluð tryggingafræðileg staða versnar um 1,6% sem þýðir að hún færi úr -7,2% í -8,8% sem hefur ekki bein áhrif á réttindi og lífeyri sjóðfélaga.
Afskriftir skuldabréfa í ársuppgjöri
Fall viðskiptabankanna í október 2008 og óvissa í íslensku efnahagsumhverfi í kjölfarið hefur haft í för með sér niðurfærslu á skuldabréfaeigninni og afskriftir á stórum hluta innlendrar hlutabréfaeignar sjóðsins. Lífeyrissjóður verzlunarmanna færði við ársuppgjör varúðarfærslu vegna skuldabréfa í kjölfar hruns fjármálakerfisins samtals að fjárhæð 9,9 milljarða. Þar af voru 4,3 milljarðar vegna skuldabréfa banka og sparisjóða og 5,6 milljarðar vegna skuldabréfa fyrirtækja.
Sjóðurinn átti ekki óveðtryggð skuldabréf/víxla nokkurra fyrirtækja sem verið hafa í fréttum að undanförnu t.d. Stoða, Landic Property, Nýsis, Milestone, Baugs, Teymis, 365, Kögun, Mosaic Fashions og Atorku. Skuldabréf eftirtaldra útgefenda, í eigu sjóðsins, voru til varúðar færð niður sjá tölur í sviga; Exista (60%), Fl Group (90%), Samson (95%) og Eimskip (60%). Ekki var talin ástæða til að færa varúðarafskriftir vegna skuldabréfa eftirtalinna útgefenda; Skipti (Síminn), Tryggingamiðstöðin, Landsvirkjun, RARIK, Alfesca, Bakkavör, Orkuveita Reykjavíkur og HB Grandi.
Þar sem erlend skuldabréfaeign Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er óveruleg og alfarið í formi hlutdeildarskírteina í skuldabréfasjóði sem fjárfestir í ríkisskuldabréfum er ekki þörf varúðarafskrifta vegna þeirra.
Frá áramótum hafa síðan Straumur, Sparisjóðabankinn og SPRON fallið. Áætluð áhrif þess á lífeyrissjóðinn leiðir til þess að tryggingafræðileg staða sjóðsins versnar um 1,6% úr -7,2% í -8,8% og er því staðan innan lögbundinna vikmarka.
Með vísan til ofanritaðs á sú umfjöllun um eignastöðu lífeyrissjóða sem fram kemur í fréttaskýringu Morgunblaðsins ekki við um Lífeyrissjóð verzlunarmanna.
Kynnisferðir
Á árunum 2005 til og með 2008 tóku forstjóri og starfsmenn eignastýringar LV alls þátt í fjórtán kynnisferðum fyrirtækja. Þar af tók forstjóri sjóðsins þátt í átta ferðum á umræddu fjögurra ára tímabili. Ferðirnar voru flestar tveggja til þriggja daga vinnuferðir.
Kynnisferðirnar tengdust kynningu á erlendri starfsemi félaganna sem í hlut áttu. Við eignastýringu er gagnlegt að kynnast stjórnendum hlutafélaga og hugmyndum þeirra um framtíðarsýn félaganna. Það er sérstaklega mikilvægt þegar um viðamiklar breytingar er að ræða í rekstri félaganna líkt og þegar um kaup á öðrum fyrirtækjum er að ræða. Þannig stofnaði Actavis til kynnisferðar í tilefni af kaupum félagsins á Alpharma, Bakkavör til kynnisferðar v/kaupa á Geest, FL-Group til kynnisferða v/kaupa á Sterling og kaupa á Refresco og Royal Unibrew, Marel v/kaupa á Stork Food System, Icelandair vegna kaupa á Travelservice, Atorka til kynningar á stærstu verksmiðju Promens í Þýskalandi og Avion v/kaupa á Daalimpex og Excel Airways auk þess sem fjármálafyrirtækin efndu til kynnisferða v/erlendrar starfsemi fyrirtækjanna.
Í kynnisferðum fyrirtækjanna tóku þátt ásamt fulltrúum lífeyrissjóða fleiri stofnanafjárfestar ásamt starfsmönnum greiningardeilda bankanna auk frétta- og blaðamanna í flestum tilvikum. Hvað aðrar ferðir varðar hefur forstjóri sjóðsins í undantekningartilvikum, einu sinni til tvisvar á ári, þegið boð í veiði innanlands. Starfsmenn lífeyrissjóðsins hafa ekki tekið þátt í veiðiferðum erlendis t.d. tilvitnaðri ferð Morgunblaðsins til veiða í Rússlandi, fóru ekki á úrslitaleik í Meistarkeppni Evrópu í Aþenu, tóku ekki þátt í ferðum tengdum akstursíþróttum og hafa ekki þegið boð í skíðaferðir eða golfferðir á erlenda grund.
Stjórnarmenn sjóðsins hafa ekki tekið þátt í kynnisferðum fyrirtækja, þegið veiðiferðir eða gjafir frá fyrirtækjum vegna starfa sinna í stjórn sjóðsins. Um jól hafa forstjóri og starfsmenn eignastýringar þegið eftir atvikum minniháttar tækifærisgjafir frá sumum viðskiptaaðilum sjóðsins.
Þorgeir Eyjólfsson forstjóri
Lífeyrissjóðs verzlunarmanna"