Veður fer versnandi um mest allt Norðurland

Vetrarlegt er á Húsavík í dag.
Vetrarlegt er á Húsavík í dag. mbl.is/Hafþór

Mjög slæmt ferðaveður er nú á Norðurlandi og fer það versnandi. Eins eru lengri leiðir á Vestfjörðum ófærar. Vegna snjóflóðahættu er fólk varað við að vera á ferð á Óshlíð og Súðavíkurhlíð að nauðsynjalausu.

Á Suðurlandi er víða hálka, hálkublettir eða snjóþekja.

Á Vesturlandi eru víða hálkublettir en hálka á heiðum og á Snæfellsnesi. Vonskuveður er einnig á Fróðárheiði. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði og versnandi veður.

Á Vestfjörðum er víðast hvar slæmt ferðaveður og langleiðir ófærar.

Stórhríð er á Ströndum og þar liggur mokstur niðri.

Stórhríð er einnig í Húnavatnssýslum og ekkert ferðaveður. Þar fer veður versnandi eins og um mest allt Norðurland. Þungfært er og stórhríð á Þverárfjalli, Kísilvegurinn er ófær, ófært er á Melrakkasléttu og þungfært og stórhríð á Hálsum.

Á Austurlandi er snjóþekja eða hálka. Hálka og éljagangur er á Fjarðarheiði. Breiðdalsheiði er ófær.

Á Suðausturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á öllum leiðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert