Á miðstjórnarfundi Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) 27. mars sl. var fjallað m.a. um starfsemi lífeyrissjóða. Miðstjórnarmönnum er það mikið áhyggjuefni hversu mikið umfjöllun um lífeyrissjóðakerfið og uppbyggingu þess einkennist af þekkingarleysi og alhæfingum. „...óhófleg hækkun varð á launakjörum nokkurra forsvarsmanna lífeyrissjóða í skjóli ofsafenginnar uppsveiflu launakjara á fjármálamarkaði: Þessi ofurlaun voru harkalega gagnrýnd af stéttarfélögum. Sama gilti um glysferðir og skrautsýningar fjármálafyrirtækja, hvort sem þær fóru fram erlendis eða á árbökkum dýrustu laxveiðiáa landsins. Launakjör þessara forsvarsmanna og þeirra sem hafa verið þátttakendur í Þórðargleði bankanna hafa skaðað lífeyrissjóðina umtalsvert,“ segir m.a. í ályktun RSÍ um lífeyrsissjóðina.
Jafnframt telur miðstjórn RSÍ brýna nauðsyn á að þessi atriði verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar og að launakjör eigi að vera í samræmi við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði. „Þjóðin er aftur orðin eigandi bankakerfisins, sem hefur leitt til endurskoðunar á kjörum yfirmanna bankanna. Sjóðfélagar lífeyrissjóða gera samskonar kröfur. Sama gildir um þátttöku í ferðum og kynningum.“