Greiðsluaðlögun komin í gegnum þingið

Greiðslubyrði þúsunda heimila er óviðráðanleg og eiginfjárstaða margra þeirra neikvæð …
Greiðslubyrði þúsunda heimila er óviðráðanleg og eiginfjárstaða margra þeirra neikvæð um margar milljónir. Ásdís Ásgeirsdóttir

Alþingi samþykkti rétt í þessu frumvarp til breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti, svonefnda greiðsluaðlögun. Frumvarpið í heild var samþykkt með 46 samhljóða atkvæðum.

Sigurður Kári Kristjánsson gerði grein fyrir atkvæðum Sjálfstæðismanna og sagði þá styðja þetta góða mál.

Árni Páll Árnason sagði mikla samstöðu hafa verið í allsherjarnefnd, sem hann stýrir, um málið og að það væri af hinu góða. Sagði hann hins vegar að betra hefði verið ef þingmenn hefðu „drattast“ til að samþykkja slíkt frumvarp þegar fyrst voru lögð fram frumvörp um það á árunum 1994 og 1995, af hendi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra en þáverandi þingmanns.

Samkvæmt frumvarpinu getur skuldari lagt fram beiðni um greiðsluaðlögun hjá héraðsdómara. Fái skuldarinn greiðsluaðlögunina virkar hún eins og þvingaðir nauðarsamningar gagnvart kröfuhafanum, þ.e. honum ber að ganga til samninga við skuldarann og breyta greiðsluáætlun hans vegna skuldarinnar, svo hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Er skuldaranum þá fenginn umsjónarmaður í greiðsluaðlöguninni. 

Lögin taka gildi 1. apríl næstkomandi, á miðvikudaginn.

Frumvarpið eins og það leit út eftir 2. umræðu á Alþingi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka