„Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið rosalega iðinn við það að leita að einhverjum í Frjálslynda flokknum sem hugsanlega væri hægt að teyma yfir, hvort sem að það er með mútum eða einhverju öðru,“ sagði Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins í Zetunni á mbl.is.
Guðjón Arnar nefndi brotthvarf Gunnars Örlygssonar og Jóns Magnússonar yfir í þingflokk Sjálfstæðisflokksins og vistaskipti Karenar Jónsdóttur í bæjarstjórn Akraness.
„Það er einfaldlega þannig að það hefur verið mikið keppikefli hjá Sjálfstæðisflokknum, og ég skil það, að reyna að kippa fólki frá Frjálslynda flokknum yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Ég er ekki að segja að Karen Jónsdóttur hafi verið mútað þegar hún ákvað að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórn Akraness eða neinum öðrum. En það hefur iðulega gerst. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt sig í líma við að ná fólki frá okkur yfir til sín,“ sagði Guðjón Arnar og bætti bvið að hann vissi að Jón Magnússon hefði tekið ákvörðun um vistaskiptin einn og sjálfur.