Önnum kafnar björgunarsveitir

Björgunarsveitarmenn á ferð
Björgunarsveitarmenn á ferð mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Björgunarsveitarmenn og lögreglumenn á Húsavík hafa verið önnum kafnir frá því snemma í morgun við að aðstoða bæjarbúa við að komast leiðar sinnar.

„Það er búið að vera brjálað að gera, ein tíu mínútna pása frá því um klukkan átta í morgun,“ sögðu þeir Elías Frímann Elvarsson og Ómar Örn Jónsson björgunarsveitarmenn á Húsavík við fréttaritara mbl.is á fimmta tímanum.

Þeir hafa ásamt Sævari Guðbrandssyni aðstoðað bæjarbúa við að komast leiðar sinnar í dag. Þeir félagar töldu að nú færi að hægjast eitthvað um enda margir bæjarbúar nú þegar komnir til síns heima.

Að sögn lögreglunnar á Húsavík er illskuveður í bænum og mjög erfið færð. Björgunarsveitarmenn sem voru á vaktinni í dag eru nýlega farnir heim. Séð verður til hvort ræsa þurfi menn aftur út í kvöld.

Einar Björnsson, formaður björgunarsveitarinnar Brimrúnar á Eskifirði, segir veðrið hafa dottið niður fyrir skömmu. Björgunarsveitarmenn séu hins vegar með bílinn úti til taks og í viðbragðsstöðu. Þeir höfðu í nógu að snúast fram til klukkan tvö í dag.

Veðrið í þéttbýli á Egilsstöðum er að ganga niður, að sögn lögreglunnar þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert