Lífeyrissjóður Vestmannaeyja mun ekki skerða réttindi eða lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga. Framkvæmdastjóri sjóðsins segir erfitt ár að baki, en staðan sé vel innan marka. Heildarskuldbindingar sjóðsins eru 3,2% umfram hreina eign í árslok 2008 og er tryggingafræðileg staða hans því vel innan þeirra 10% marka sem lög setja.
Í tilkynningu framkvæmdastjóra sjóðsins segir að meðaltal hreinnar raunávöxtunar sjóðsins sl. 5 ár sé 4,69% og meðaltal síðustu 10 ár 4,29%.
Hrein eign Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja var í árslok 2008 um 24,4 milljarðar króna og óx um 990 milljónir á árinu eða um 4,24%. Vegna falls viðskiptabankanna og fjármálakreppu voru skuldabréf fjármálafyrirtækja og nokkurra annarra fyrirtækja færð niður um 1,2 milljarða til að mæta fyrirsjáanlegum töpum. Varúðarniðurfærslurnar nema um 5,0% af hreinni eign í árslok. Eignir sjóðsins í hlutabréfum bankanna urðu verðlausar við hrun þeirra í október 2008, en hlutabréfin voru metin á markaðsgengi í lok september á um 680 milljónir króna.
Óvissa ríkir um uppgjör gjaldmiðlavarnasamninga sem sjóðurinn gerði á árinu. Staða þeirra er metin í ársreikningi á gengi krónunnar eins og það var við bankahrunið í október sl. Bankarnir urðu strax eftir fall þeirra ófærir um að sinna þessum gjaldmiðlasamningum en gjalddagar þeirra voru nálægt síðustu áramótum.