Segja Útlendingastofnun starfa á rasískum grunni

Ragna Árnadóttir ræddi við fulltrúa mótmælenda út um glugga heimilis …
Ragna Árnadóttir ræddi við fulltrúa mótmælenda út um glugga heimilis síns í dag.

Hópur hælisleitenda og stuðningsmanna þeirra hittu Rögnu Árnadóttur
dómsmálaráðherra í dag en Ragna bauð hópum á sinn fund eftir að efnt var til mótmælasamkomu við heimili hennar í gær. 

Á fundinum afhenti hópurinn ráðherra áskorun 35 einstaklinga þar sem m.a. segir að Útlendingastofnun hafi starfað á rasískum og fasískum grunni að undanförnu. Þá segir að þar sem ekki virðist lengur jafn fjarstæðukennt og áður að Íslendingar geti þurft á hjálp umheimsins að halda, ættu Íslendingar nú að skilja betur en nokkru sinni þörfina fyrir samhjálp.

Áskorun hópsins fer í heild hér að neðan:  

„Marktækar raddir halda því fram að 21. öldin verði öld flóttamannsins, það má líka segja að Ísland hafi verið með fyrstu löndunum til að stíga inn í þessa nýju öld. Við verðum að taka meðvitaða ákvörðun út frá hvaða lögmáli við bregðumst við þeirri áskorun. Það er ekki lengur jafn fjarstæðukennt og það var fyrir hálfu ári síðan að Íslendingar geti þurft á hjálp umheimsins að halda, og þess vegna ættum við að geta skilið betur nú en nokkru sinni að almenna lögmálið á að vera samhjálp, en ekki höfnun og andúð. Því leggjum við hér fram eftirfarandi kröfur til núverandi og næstkomandi ríkisstjórnar: 

- Dyflinnarreglugerðin sem er vísað til þegar fólki er synjað um hæli hérlendis var samin til að tryggja hælisleitendum athvarf leiti þeir þess innan Schengen-svæðisins, en ekki til að opna gátt til undanbragða, og losna auðveldlega við þá af landinu. Ný ríkisstjórn verður að sýna að hún starfi í anda mannréttinda, og án undanbragða. 

- Íslensk stjórnvöld verða að hlusta á þær upplýsingar og kröfur sem virtar alþjóðlegar stofnanir eins og Rauði Krossinn og Flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna leggja fram. Báðar stofnanirnar leggjast gegn því að aðildarríki Schengen sendi hælisleitendur til Grikklands á forsendum Dyflinnarreglugerðarinnar. Grikkir hafa ekki veitt hælisleitendum „sanngjarna málsmeðferð“, sem þeim er lofað á grundvelli reglugerðarinnar. Sé ljóst að íslensk stjórnvöld sendi hælisleitenda til aðildarríkis og hafi rökstuddan grun um að það ríki myndi síðan senda viðkomandi til sín heimalands þá eru íslensk stjórnvöld að brjóta á sáttmálanum og skuldbindingum sínum. 

-Hér á landi hefur lengi verið látið eins og það séu bara til sérhagsmunir en ekki almennir hagsmunir. Við verðum að hefja til vegs og virðingar þann rétt sem við, eins og allt alþjóðasamfélagið, höfum þegar játast í orði kveðnu. Íslensk stjórnvöld hafa veitt fjölskylduvinum ráðamanna sérmeðferðir á meðan þeim sem hingað koma með réttum leiðum, og fylgja reglum alþjóðasamfélagsins eftir, er markvisst og kerfisbundið hafnað. Þess vegna eru hælis- og dvalarleyfisveitingar Íslands til hælisleitenda og flóttamanna langt undir þeim mörkum sem nágrannalönd okkar hafa markað sér. 

- Því miður virðist Útlendingastofnun hafa að undanförnu starfað á rasískum og fasískum grunni. Talsmenn stofnunarinnar hafa komið illa fyrir í fjölmiðlum og gert ítrekað lítið úr hælisleitendum. Innrás lögreglu með hunda inn á heimili hælisleitenda í september síðastliðinn var æði vafasöm og meðferðin á hælisleitendum þegar þeim er neitað um hæli er til skammar.

Mýmörg dæmi eru um að þeim sé lesin höfnun á dvalarleyfi um leið og þeir eru teknir höndum og sendir úr landi. Við krefjumst þess að hælisleitendum verði gefinn góður tími til að leita lögfræðiaðstoðar vegna slíkrar synjunar. Það að menn þurfi að bíða höfnunarinnar í marga mánuði eða ár, án þess að vita hvað morgundagurinn ber í skauti sér er hryllingur sem enginn siðmenntuð þjóð getur boðið sálarlífi nokkurs manns.  

Við krefjumst þess af íslenska ríkinu að þessu verði breytt og málsmeðferðir hælisleitenda verði bættar til muna. Fyrir hönd hóp fólks sem að undanförnu hefur leitast við að kynna sér mál ýmissa hælisleitenda."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka