Sjómannadagsráð er að hefja byggingu á 95 leiguíbúðum fyrir 60 ára og eldri við Boðaþing í Kópavogi. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, og Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannadagsráðs, tóku fyrstu skóflustunguna að þjónustu- og leiguíbúðunum á föstudaginn var. Framkvæmdir hefjast í vor.
„Hönnun og skipulag þjónustu- og öryggisíbúðanna miðast við að aldraðir geti sem lengst haldið eigið heimili og nýtt sér þá þjónustu sem Hrafnista og Kópavogsbær bjóða í Boðaþingi, s.s. fæði, heimilishjálp eða heimahjúkrun. Innangengt verður úr nýju byggingunni yfir í þjónustumiðstöð aldraðra sem Kópavogsbær er að reisa við Boðaþing 9. Í þjónustumiðstöðinni verður fjölnotasalur með eldhúsi, sundlaug og föndursalur auk þess sem þar verður boðið upp á sjúkraþjálfun, hár- og fótsnyrtingu,“ samkvæmt fréttatilkynningu. Auk þess að reka þjónustumiðstöðina mun Hrafnista sjá um rekstur hjúkrunarheimilis sem Kópavogsbær er að reisa við Boðaþing í samvinnu við ríkið.
Framkvæmdin verður boðin út í heild á næstunni og hefjast framkvæmdir í vor. Hönnuðir eru THG arkitektar, Verkfræðiþjónustan ehf. og VSÓ ráðgjöf.