Guðlaug Arna Álfgeirsdóttir, sem björgunarsveitarmenn fluttu á sjúkrahús í Neskaupstað í nótt, segist ekkert hafa verið stressuð yfir aðstæðunum. Guðlaug Arna var á leið frá á sjúkrahúsið til að fæða barn þegar bíll hennar festist í snjó á Oddskarði Eskifjarðarmegin.
Guðlaug Arna sagðist frekar hafa fundið fyrir því, að sumir þeirra sem voru í kringum hana meðan á þessu stóð hefðu verið taugaspenntir.
Björgunarsveitirnar Gerpir frá Neskaupstað og Brimrún frá Eskifirði voru kallaðar út um klukkan 4:30 í nótt og var björgunarsveitabíll sendur frá Eskifirði með lækni. Var hann kominn að bíl Guðlaugar Örnu um klukkustund síðar. Ekið var með hana áleiðis til Neskaupstaðar og við Háhlíðarhorn biðu menn frá Gerpi með tvo björgunarsveitabíla, sem í voru læknir og ljósmóðir. Þá voru snjóplógur og snjótroðari frá skíðasvæðinu á Neskaupstað með í ferð.
Færð var afar slæm og var snjótroðarinn nýttur til að troða svæði í kringum veginn þannig að hægt væri að snúa bílunum við. Ekki vildi hins vegar vetur til en svo að snjóplógurinn festist og þurfti að nýta troðarann til að losa hann. Veður var afleitt á svæðinu en vindhraði var um 48 m/sek og allar aðstæður mjög erfiðar.
Í Oddsskarðsgöngum var Guðlaug Arna færð yfir í bíl frá Gerpi og ekið með hana á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Þangað kom hún klukkan 7:15 í morgun og lítil dökkhærð og hárprúð stúlka fæddist klukkan 8:01. Hún var 54 sentimetrar að lengd og 16 merkur að þyngd. Stúlkan er annað barn þeirra Guðlaugar Örnu og Jóns Ólafs Eiðssonar, sem búa á Reyðarfirði.
Í ljósi björgunaraðgerðanna hafa björgunarsveitarmenn og aðrir til gamans hent á loft ýmsum viðeigandi nöfnum á stúlkuna, s.s. Oddbjörg, Snæbjörg, Gerpla og Brimrún.