Það var góð stemmning á bryggjunni í Vestmannaeyjum í gær þegar Kap VE byrjaði að veiða síld í höfninni. Þetta er í annað sinn sem skipið reynir við síldina í höfninni en eftir fyrsta túrinn var veiðin stöðvuð. Hún var hins vegar leyfð að nýju á föstudaginn enda fyrirséð að talsverð mengun yrði af síldinni í sumar, ef hún yrði ekki hreinsuð upp.
Veiðin í gær gekk vel, engar veiðitölur liggja fyrir en fróðir menn á bryggjukantinum skutu á að köstin tvö hefðu verið samtals um 500 tonn.
Fjölmargir fylgdust með þegar Kap VE kastaði innst í höfninni í Vestmannaeyjum, við Friðarhöfn eða inn í pytt, sem kallað er. Skipið fór þétt meðfram bryggjukantinum og naut aðstoðar hafnsögubátsins Lóðsin og björgunarbátsins Þórs. Samkvæmt mælingu Hafrannsóknastofnun voru um 800 tonn af síld í höfninni en meirihluti hennar ætti að vera komin á þurrt nú. Aflinn fer allur í bræðslu en sjávarútvegsráðuneytið gerir þá kröfu að aflinn verði eingöngu nýttur til að bera kostnað af hreinsuninni.