Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP banka, ætlar að viðhalda vörumerki SPRON og verða útibúin á Seltjarnarnesi, í Borgartúni og á Skólavörðustíg rekin áfram. Fjörutíu og fimm starfsmenn sem unnu í útibúunum munu halda vinnu sinni. Margeir segir ekki loku fyrir það skotið að fleiri starfsmönnum verði boðin vinna hjá hinu nýja fyrirtæki. „Þetta eru gleðitíðindi,“ segir Ólafur Már Svavarsson, formaður starfsmannafélags SPRON.
Kaupin endurspegla sókn MP banka inn á viðskiptabankamarkaðinn, en bankinn fékk á síðasta ári viðskiptabankaleyfi. Sparisjóðurinn hefur mælst hátt í Íslensku ánægjuvoginni, sem mælir afstöðu almennings til fyrirtækja. Margir starfsmanna SPRON í áðurnefndum útibúum hafa unnið árum saman hjá bankanum og byggt upp náið samband við viðskiptavini sparisjóðsins.
Innlán SPRON voru færð til Nýja Kaupþings þegar FME tók bankann yfir og eru viðskiptavinir SPRON því viðskiptavinir Kaupþings í dag.
„Innlán og efnahagur SPRON og Netbankans hafa þegar flust yfir til ríkisbanka, en viðskiptavinir geta nú flutt sig til baka frá og með næsta mánudegi,“ segir í tilkynningu frá MP banka sem hann sendi frá sér í tilefni kaupanna í gær. „Við höfum boðið viðskiptavini SPRON velkomna í Kaupþing og vonumst til þess að njóta viðskipta við þá ,“ segir Finnur Sveinbjörnsson, forstjóri Nýja Kaupþings.