Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi þegar hann mælti fyrir frumvarpi um hert gjaldeyrishöft, að um væri að ræða brýnar og óumflýjanlegar ráðstafanir. Greinilegt er að samstaða er um málið á Alþingi því enginn tók til máls í fyrstu umræðu utan Steingrímur.
Málinu var vísað til efnahags- og skattanefndar þingsins, sem kölluð var þegar saman. Var aðeins gert ráð fyrir að nefndin fái klukkustund til að fjalla um málið því þingfundur var boðaður á ný klukkan 19:45. Fundinum var síðan frestað til klukkan 21 og þá fer væntanlega fram önnur umræða um frumvarpið.
Steingrímur lagði áherslu á að frumvarpið yrði að lögum í kvöld. Lokað hefði verið fyrir móttöku tollskýrslna á rafrænu formi fyrir klukkan 16 í dag og vandséð sé hvernig gjaldeyrismarkaður geti starfað í fyrramálið nema breytingarnar hafi þá tekið gildi.
Steingrímur sagði, að allsterkar vísbendingar væru um að það markmið að byggja upp gjaldeyrisforða með skilaskyldu gjaldeyris, hefði ekki náðst og ástæðan væri sú að útflutningsaðilar væru ekki skuldbundnir til að selja afurðir sínar í erlendum gjaldmiðli.
Sagði Steingrímur, að lækkun gengis krónunnar að undanförnu gæfi vísbendingar um að einhverjir útflytjendur fái greitt fyrir vörur sínar innanlands með krónum en kaupandinn greiði, annað hvort beint eða gegnum millilið, í erlendum gjaldmiðli til aðila utan landsteinanna. Þannig sé dregið mjög úr áhrifum gjaldeyrisreglna Seðlabankans.
Þetta ástand sé óviðunandi, ekki aðeins vegna þeirra áhrifa sem það hefur á gengi krónunnar heldur bjagi það samkeppnisstöðu og gæti orðið dýrkeypt vegna undirboða og fleiri vandræða á markaði.
Steingrímur sagði, að stóru útflutningsfyrirtækin væru ekki þátttakendur í þessum krónuútflutningi og hefðu spilað samkvæmt þeim leikreglum, sem ætlunin væri að fylgt sé með skilaskyldu gjaldeyris.
Steingrímur sagðist hafa kynnt málið í dag fyrir forustumönnum útvegsmanna og fiskvinnslunnar og Samtaka atvinnulífsins. Hefðu allir verið sammála um nauðsyn þess að bregðast við aðstæðunum þótt þeir hefðu verið eftir atvikum missáttir við þær takmarkanir, sem gilda á gjaldeyrisviðskiptum og voru settar í haust.