Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 21 árs gamla konu í hálfs árs fangelsi fyrir fjölda brota, þar á meðal skjalafals, þjófnað og fíkniefnabrot. Þá var hún svipt ökuréttindum í ár og dæmd til að greiða verslunum og fyrirtækjum samtals tæplega 200 þúsund krónur í bætur. Konan rauf skilorðs eldri dóms, sem hún hlaut fyrir þjófnað.
Konan var m.a. fundin sek um að hafa í samvinnu við karlmann svikið út vörur í tveimur verslunum með því að nota greiðslukort, sem maðurinn hafði komist yfir. Parið keypti vörur með afborgunarsamningum fyrir samtals um 350 þúsund krónur.
Þá var konan fundin sek um 17 þjófnaðarbrot en aðallega var um að ræðaa þjófnaði úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Hún var fundin sek um fjársvik með því að láta snyrta hár sitt á hárgreiðslustofum en stinga af án þess að greiða reikningana, sem samtals hljóðuðu upp á rúmar 50 þúsund krónur. Þá var konan fundin sek um að hafa látið leigubílstjóra aka sér en greiða ekki ökugjaldið. Einnig var hún fundin sek um eignaspjöll með því að sparka í bíl og valda skemmdum, sem metnar voru á 127 þúsund krónur.
Loks var konan sakfelld fyrir að aka bíl án ökuréttinda og undir áhrifum amfetamíns og fyrir að hafa amfetamín í fórum sínum.