Eva Joly hverrar krónu virði

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir fréttir af þrotabúi Samson í eigu Björgólfsfeðga dapurlegar. Það sé sama hvar lokinu sé lyft af pottinum. Það komi alltaf svona hlutir í ljós og sjálfsagt sé ekki allt búið enn. Flestar eignir í þrotabúi félags Björgólfsfeðga Samson, virðast vera lán til annarra félaga í eigu sömu manna að því er Morgunblaðið greinir frá í dag. Félagið lagði fram yfirlit um eignir uppá 172 milljarða en einungis hefur reynst unnt, enn sem komið er, að ná um 2,3 milljörðum til baka af þeim eignum. Kröfur í búið eru um níutíu milljarðar. Ráðherrann segir þetta dæma sig sjálft, þetta sé hluti af arfinum eða þeim viðskiptaháttum sem hafi tíðkast. Það þurfi ekki orðlengja. Krosseignatengsl, viðskipti og lánveitingar til tendgra aðila, þetta sé allt saman hluti af ógæfu Íslands.

Laun Evu Joly sem aðstoðar við rannsókn á lögbrotum sem kunna að hafa verið framin í tengslum við bankahrunið hafa sætt gagnrýni. Hún mun fá um 1300 þúsund krónur á mánuði.  Fjármálaráðherra tekur ekki undir þá gagnrýni. Hann segir að menn verði að átta sig á því að ekki sé hægt að ráða einn færasta og þekktasta saksóknara heimsins án þess að það kosti einhverja peninga. Hann segist telja að Eva Joly verði hverrar krónu virði. Þetta séu ekki háar upphæðir miðað við taxta ýmissra ráðgjafa í fjármálalífinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert