Fjármögnun Tónlistarhúss ókláruð

Vinna við Tónlistarhúsið var við það að stöðvast á ný.
Vinna við Tónlistarhúsið var við það að stöðvast á ný. mbl.is/Júlíus

Samningur var gerður í morgun milli Íslenskra aðalverktaka og Portusar, félags í eigu Austurhafnar, um áframhaldandi byggingu Tónlistarhússins. Samningurinn var gerður með fyrirvara um að ríki og borg gangi endanlega frá fjármögnun verksins en það hefur tafist hjá ríkisbönkunum, sem unnið hafa í sambankaláni fyrir framkvæmdunum.

Hefði þessi samningur ekki verið gerður, hefðu Íslenskir aðalverktakar orðið að hægja á framkvæmdum og jafnvel segja upp starfsfólki núna um mánaðamótin. „Þetta er yfirferð á nokkrum breytingum sem þótti nauðsynlegt að gera en samningurinn gerir áfram ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í febrúar árið 2011,“ segir Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar, um samninginn frá í morgun.

Stefán segir það aðeins spurningu um daga að gengið verði endanlega frá öllum samningum, sem síðan þurfa að fara fyrir ráðuneyti og borgaryfirvöld. Stefán segir töfina á málinu vissulega vera orðna bagalega en borgarstjóri og menntamálaráðherra undirrituðu viljayfirlýsingu 19. febrúar sl. um að hefja framkvæmdir við tónlistarhúsið á nýjan leik, en þær stöðvuðust í lok síðasta árs. Áætlanir gera ráð fyrir að 13-15 milljarða króna kosti að ljúka byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert