Frumvarpið ekki afgreitt út úr sérnefnd

Ekki tókst að afgreiða frumvarp til breytinga á stjórnarskránni úr sérnefnd um stjórnarskrármál nú í kvöld. Boðað hefur verið til fundar í nefndinni í hádeginu á morgun og býst Valgerður Sverrisdóttir, formaður nefndarinnar, við því að þá verði frumvarpið afgreitt út úr nefndinni og til annarrar umræðu í þinginu.

„Eins og staðan er núna þá er ekki samstaða um málið í nefndinni,“ segir Valgerður og tekur fram að á ýmsu strandi. Eins og fram hefur komið munu þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggjast gegn stjórnarskrárbreytingum en samkvæmt frumvarpinu, sem allir hinir flokkarnir á Alþingi standa að, er lagt til að bætt verði við stjórnarskrána ákvæði um auðlindir í þjóðareigu, þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing. 

Að sögn Valgerðar gerðu sjálfstæðismenn athugasemdir við þann mikla kostnað sem fælist í stjórnlagaþingi. „Við í meirihlutanum höfum því kynnt breytingartillögu sem við teljum að komi verulega til móts við sjálfstæðismenn,“ segir Valgerður og nefnir sem dæmi að ráðgert sé að minnka verulega umfang stjórnlagaþings. Það verði t.d. gert með því að stytta starfstíma þess auk þess sem ekki verði gert ráð fyrir að fulltrúar á stjórnlagaþingi sitji þar í fullu starfi. 

„Þannig að kostnaður við það, samkvæmt nýrri kostnaðarumsögn frá fjármálaráðuneytinu, er 400-500 milljónir í stað þess að vera allt að tveir milljarðar króna,“ segir Valgerður. 

En kostnaðurinn var ekki eina gagnrýnisatriði Sjálfstæðismanna þegar kom að stjórnlagaþinginu. „Þeir vilja að stjórnlagaþingið sé aðeins ráðgefandi og hafi því ekki vald til þess að vísa stjórnarskrárbreytingum til þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Valgerður. Samkvæmt frumvarpi meirihlutans er hins vegar gert ráð fyrir að áður en stjórnlagaþing samþykki frumvarp að nýrri stjórnarskrá skuli senda það  Alþingi til umsagnar. 

Samkvæmt upplýsingum mbl.is má búast við því að frumvarp meirihluta sérnefndarinnar um stjórnarskrárbreytingar verði afgreitt út úr nefndinni á morgun hvort sem samstaða náist um málið þar eða ekki. Telja heimildamenn mbl.is ekki ósennilegt að sjálfstæðismenn verði langorðir þegar frumvarpið verði rætt í þinginu. 

  

Valgerður Sverrisdóttir
Valgerður Sverrisdóttir Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert