Stjórn Geðhjálpar fékk um helgina umboð aðalfundar til að taka ákvörðun um mögulega úrsögn úr Öryrkjabandalagi Íslands. Djúpstæður ágreiningur er milli Geðhjálpar og ÖBÍ vegna búsetumála fatlaðra. Geðhjálp segir ÖBÍ að óbreyttu Þránd í götu jafnréttis til búsetu og gagnvart kröfunni um eitt samfélag fyrir alla.
Ágreiningur Geðhjálpar og Öryrkjabandalagsins var ræddur á aðalfundi Geðhjálpar um helgina. Undanfarin ár hefur gætt mikillar óánægju innan raða Geðhjálpar með ástand mála í Hátúni 10, 10a og 10b. Geðhjálp segir að þar sæti íbúar umfangsmiklum mannréttindabrotum. Sigursteinn Másson, fyrrverandi formaður ÖBÍ lét af formennskunni í kjölfar átaka um málefni Brynju, hússjóðs ÖBÍ sem á og rekur á sjöunda hundrað íbúðir fyrir fatlaða.
Geðhjálp segir að aðgreinandi húsnæðiskerfi, rekið af heildarsamtökum fatlaðra, stríði gegn nútímastefnu EDF, Evrópusamtaka fatlaðra, sem og gegn samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra.
Stjórn Geðhjálpar segir í greinargerð sem lögð var fram á aðalfundi um helgina, að mikill ágreiningur ríki á milli Geðhjálpar og ráðandi afla innan ÖBÍ á fleiri sviðum en búsetumálum. Ágreiningurinn tekur m.a. til nýs örorkumats og starfsendurhæfingar, flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaga og stefnunnar í lífeyrismálum fatlaðra.
„Í öllum þessum málum hefur Geðhjálp ekki fundið neinn samhljóm með stefnu meirihluta framkvæmdastjórnar ÖBÍ. Hins vegar er ljóst að málstaður mannréttinda fatlaðra á ríkan hljómgrunn hjá mörgum aðildarfélögum ÖBÍ. Því þykir ekki rétt að bera fram afdráttarlausa tillögu um úrsögn Geðhjálpar úr ÖBÍ heldur veita stjórn félagsins umboð til að ákvarða tengsl Geðhjálpar við ÖBÍ. Þar með skapast samningsstaða sem kann að leiða til farsællar niðurstöðu,“ segir í greinargerð sem lögð var fram á aðalfundi Geðhjálpar.
Á aðalfundinum var Sigursteinn Másson kjörinn formaður Geðhjálpar til tveggja ára. Í aðalstjórn Geðhjálpar voru kjörin Auður Styrkársdóttir, Lárus R. Haraldsson og Sesselja Jörgensen, öll til 2 ára og Lena Guðrún Hákonardóttir til 1 árs. Fyrir eru 2 aðalstjórnarmenn, þær Birna Dís Vilbertsdóttir og Vala Lárusdóttir sem sitja a.m.k. 1 ár í viðbót.