Dreift var á Alþingi nú síðdegis nýju stjórnarfrumvarpi um breytingar tolla- og gjaldeyrislögum sem á að tryggja að markmið um skilaskyldu gjaldeyris náist þannig að hægt verði að byggja upp gjaldeyrisforða hér á landi. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum í nótt.
þskj. 870 # frumskjal fjmrh., 136. lþ. 462. mál: #A tollalög og gjaldeyrismál # frv.Frumvarpið gerir m.a. ráð fyrir því, að útflutningsviðskipti vöru og þjónustu skuli fara fram í erlendum gjaldmiðli. Í greinargerð með frumvarpinu segir, að gengi íslensku krónunnar hafi farið lækkandi síðustu vikur og séu sterkar vísbendingar um að því markmiði með skilaskyldu á gjaldeyri að byggja upp gjaldeyrisforða vegna útflutningstekna, verði ekki náð þar sem aðilar séu ekki skuldbundnir til að selja útflutningsafurðir í erlendum gjaldmiðli.
Vísað er í upplýsingar frá Hagstofu Íslands og tollyfirvöldum um að verðmæti útfluttra vara, sem greitt hafi verið fyrir með íslenskum krónum á tímabilinu janúar til mars á þessu ári, sé nærri 2 milljörðum króna hærri en á sama tíma árið 2008. Innflutningur til landsins hafi einnig dregist saman sem ætti að gefa frekari grundvöll fyrir styrkingu krónunnar. Veiking gengis krónunnar gefi því vísbendingar um, að einhverjir útflytjendur fái greitt fyrir vörur sínar innan lands með íslenskum krónum en að kaupandinn greiði, annaðhvort beint eða í gegnum millilið, í erlendum gjaldmiðli til aðila utan landsteinanna. Þannig sé dregið mjög úr áhrifamætti gjaldeyrisreglna Seðlabankans.
Í frumvarpinu er lagt til að breytingarnar, sem á að gera á gjaldeyris- og tollalögum, verði tímabundnar til 30. nóvember 2010, og er þá miðað við sama tímabil og áætlun Íslands um efnahagsstöðugleika vegna lánsumsóknar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tekur til.