Rannsókn stendur yfir á gengisfalli síðustu vikna. Fjármálaráðherra segir að gjaldeyrismarkaðurinn sé grunnur, veltan lítil en það veldur einnig áhyggjum að gjaldeyrishöftin leka. Steingrímur J. Sigfússon segir þetta valda miklum áhyggjum og við þessu þurfi að bregðast. Það sé mjög bagalegt ef krónan þróist í þessa átt. Það skipti miklu máli að allir spili með og virði þessar reglur.
Hann vill ekki segja hvort til greina komi að herða reglur um gjaldeyrisskil en segir gríðarlega afdrifaríkt að ná utan um þetta. Það geti til að mynda skipt sköpum um hversu hratt verður hægt að lækka hérna vexti. Verið að rannsaka hvernig reglum um gjaldeyrisskil er fylgt eftir til að hægt sé að gera sér grein fyrir umfangi lekans með því að kortleggja útflutning í krónum og bera saman tölur frá síðustu áramótum og árunum þar á undan.