Golfvöllur með handafli í Viðey

„Hugmyndin er fyrst og síðast tilkomin til að skapa fólki …
„Hugmyndin er fyrst og síðast tilkomin til að skapa fólki atvinnu nú þegar mikið liggur við og hér erum við að tala um verkefni sem gæti vakið heimsathygli,“ segir Edwin Roald Rögnvaldsson golfvallahönnuður. mbl.is/RAX

Edwin Roald Rögnvaldsson golfvallahönnuður hefur lagt til að gerður verði golfvöllur í Viðey með handafli og hestum. Völlurinn yrði óður til bestu golfvalla heims sem byggðir voru um og eftir aldamótin 1900 og Edwin er sannfærður um að hann myndi laða til landsins fjölda kylfinga. „Ef rétt er að málum staðið gæti þetta verkefni vakið heimsathygli,“ segir hann.

Hugmyndir um golfvöll í Viðey eru ekki nýjar af nálinni en ekki hefur í annan tíma verið lagt til að hann yrði gerður með þessum hætti. „Það er samdóma álit margra að þessar „takmarkanir“, þ.e. að geta ekki notað stórvirkar vinnuvélar, hjálpuðu mönnum áður fyrr að hugsa sjálfstætt – sníða hjá viðmiðum og „reglum“ sem gera lítið annað en að steypa alla golfvelli í sama mót. Þetta er líklega ein helsta skýringin á því að langflestir bestu golfvellir heims eru gerðir fyrir heimskreppuna sem skall á 1929. Kannski er það nostalgía en munurinn á þessum eldri völlum og þeim sem nýrri eru felst að stórum hluta í smáatriðunum, t.d. við flatir,“ segir Edwin.

Ekki endilega átján holur

Hugmynd Edwins er að hrófla sem allra minnst við landinu í eynni, t.d. mætti ganga út frá því að yrði golfvöllurinn einhvern tíma aflagður, af einhverjum sökum, þá sæjust svo til engin ummerki um hann.

Framkvæmdin yrði mannaflsfrek. Gerir hann ráð fyrir á annað hundrað störfum í hálft ár hið minnsta. „Hugmyndin er fyrst og síðast tilkomin til að skapa fólki atvinnu nú þegar mikið liggur við og hér erum við að tala um verkefni sem gæti vakið heimsathygli fyrir það einmitt að það yrði mannaflsfrekt. Við gætum slegið margar flugur – eða holur – í einu höggi,“ segir Edwin.

Nánar um málið á videygolf.com.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka