Krónan kemst ekki upp milli ráðherranna á stjórnarheimilinu þótt forsætisráðherra vilji helst kasta henni burt en fjármálaráðherra telji hana hafða fyrir rangri sök. Það setti hlátur að formönnum stjórnarflokkanna þegar spurt var í lok blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar hvort þetta kæmi í veg fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarf.
Krónan er grátt leikin en ekki ónýt sagði fjármálaráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Þjóðmenningarhúsinu. Ráðherrann fór fögrum orðum um krónuna sem hann sagði hafða fyrir rangri sök. Hún hefði hvorki tekið viðsjárverðar ákvarðanir í efnahagsmálum né heldur staðið í fararbroddi útrásarinnar.
Forsætisráðherra finnst hinsvegar ekki jafn vænt um krónuna og stefnir að því að taka upp evru, helst sem fyrst. Stjórnarsamtarfið er þó að þeirra sögn alveg skínandi.