Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að samþykkja beri kröfu um dómkvaðningu tveggja matsmanna til að vinna álitsgerð í máli Olíuverslunar Íslands, Kers og Skeljungs gegn Samkeppniseftirlitinu. Samkeppniseftirlitið krafðist þess að dómari hafnaði kröfunni en ekki taldist heimild fyrir slíkri höfnun.
Um er að ræða upprunalega samráðsmálið sem rekið hefur verið fyrir dómstólum frá hausti 2005. Olíufélögin fara fram á að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá október 2004, um að olíufélögin þrjú hefðu gerst sek um verðsamráð á árunum 1993 til 2001 verði hnekkt.
Álitsgerðin sem lögmenn olíufélaganna fara fram á lýtur að ávinningi félaganna vegna meints samráðs þeirra. Heimir Örn Herbertsson, lögmaður Samkeppniseftirlitsins, fór fram á að kröfunni yrði synjað, m.a. þar sem ítarleg gögn um málefnið liggi fyrir í málinu, sönnunarfærslan væri þarflaus og málsmeðferð hefði dregist langt fram úr hófi.
Héraðsdómur taldi ekki bersýnilegt að hin nýja álitsgerð skipti ekki máli fyrir niðurstöðu málsins. Dómurinn tók undir að málshraði hafi verið of hægur en taldi þó að heimild skorti til að hafna dómkvaðningu á þeirri forsendu að meginreglan um hraða málsmeðferð hafi ekki verið virt. Hæstiréttur vísaði í forsendur héraðsdóms í dómi sínum.
Álitsgerðin snýr að hver ávinningur olíufélaganna á meintu samráði hefði verið ef við viðmiðun á tímabili samráðs hefði tímabilið 1996-2001 verið borið saman við tímabilið 2002-2004 miðað við útreikninga Samkeppnisráðs (nú Samkeppniseftirlits).