Mikilvægt að sömu reglur gildi fyrir alla

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ mbl.is/Eyþór

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir mikilvægt að sömu reglur gildi fyrir alla á gjaldeyrismarkaðnum eins og nú sé stefnt að með frumvarpi um gjaldeyrishöft sem lagt var fram á Alþingi fyrr í kvöld. Kominn hafi verið á tvöfaldur gjaldeyrismarkaður og gjaldeyririnn hafi ekki komið heim.

„Þegar lögin um gjaldeyrishöft voru sett á sínum tíma voru vöruviðskiptin einhverra hluta vegna undanskilin sem er mjög undarlegt. Þess vegna myndaðist tvöfaldur gjaldeyrismarkaður en þetta var lögmætt. Við komumst reyndar ekki að því fyrr en fyrir stuttu að þetta væri að gerast með þessum hætti,“ segir Friðrik.

Hann bendir á að hægt hafi verið að kaupa krónur af þeim sem vildu selja. „Það segir sig sjálft að þegar hægt er að kaupa krónur 20 til 30 prósentum undir því sem skráð er hjá Seðlabankanum þá fara viðskiptin í þann farveg. Þetta varð til þess að gjaldeyririnn kom aldrei heim sem var markmiðið með lögum um gjaldeyrishöft.“

Að sögn Friðriks gerir LÍÚ ekki athugasemdir við nýja frumvarpið en í því segir að nauðsynlegt sé að gera kröfu um að útflutningsviðskipti fari fram í erlendum gjaldmiðli. „Við kveinkum okkur ekki við að koma heim með gjaldeyri og skipta honum á því gengi sem hér gildir. Við viljum auðvitað stuðla að því að styrkja við gengi krónunnar ef það verður til þess að ná niður vöxtum og verðbólgu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert