Kostnaður við rafhitun hækkaði nokkuð umfram vísitölu neysluverðs á tímabilinu frá 1. janúar 2005 til loka janúar á þessu ári. Hækkunin er minnst hjá Orkuveitu Reykjavíkur, 15,5% en mest hjá Orkuveitu Húsavíkur en þar nemur hækkunin 85,4%.
Jón Bjarnason þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs spurði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra um þróun raforkuverðs í þéttbýli og dreifbýli.
Raunlækkun á rafmagni til heimilisnotkunar
Í svarinu segir að raforkuverð ráðist af nokkrum þáttum sem þróast með ólíkum hætti eftir staðsetningu, umfangi viðskipta og af hvaða söluaðila raforka er keypt. Því sé útilokað að gefa eitt algilt svar við því hver þróun raforkuverðs hafi verið.
Ef hins vegar miðað er við að notandi með árlega notkun upp á 5.000 kWh kaupi raforku af þeim söluaðila sem býður lægsta raforkuverð hefur raforkuverð til heimilisnotenda í þéttbýli hækkað á bilinu 8,6%–24,9% frá 1. janúar 2005 og fram í febrúar á þessu ári.
Á sama tímabili hefur raforkuverð í dreifbýli hækkað um 25,9% (Rarik) og 26,4% (OV). Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 40,1% og hefur því alls staðar orðið raunlækkun á bilinu 14–32%.
Rafhitun hefur hækkað
Ef aðeins er horft á þróun flutnings- og dreifingarhluta raforkukostnaðar kemur upp nokkuð önnur mynd, að gefnum sömu forsendum. Gjaldskrár vegna flutnings og dreifingar hafa hækkað um á bilinu 15,5–35,9%, nema á dreifiveitusvæðum Rarik þar sem gjaldskrár hafa hækkað um 41,2% í þéttbýli og 52,4% í dreifbýli. Þá hefur flutningur og dreifing hækkað um 85,4% á dreifiveitusvæði Orkuveitu Húsavíkur.
Í svari iðnaðarráðherra segir að frávik vegna Orkuveitu Húsavíkur skýrist af því að gjaldskrá Orkuveitu Húsavíkur hafi verið lág en orkuverð hátt til að byrja með, en gjaldskrá dreifingar var hækkuð samhliða lækkun orkuverðs frá og með 2006. Frávik vegna gjaldskrár Rarik megi að hluta rekja til kerfisbreytinga á gjaldskrá Rarik um síðustu áramót vegna stærri notenda, þar sem tekið er aukið tillit til magns raforkukaupa og jöfnun þannig aukin milli þeirra sem nýta raforku til hitunar og annarra.
Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 40,1% og hefur því alls staðar orðið raunlækkun nema hjá Rarik og Orkuveitu Húsavíkur, þegar miðað er við 5.000 kWh notkun.
Iðnaðarráðherra segir að sú raunlækkun sem orðið hefur á raforkuverði til almennrar heimilisnotkunar hljóti að teljast nokkuð viðunandi. Hins vegar liggi fyrir að kostnaður við rafhitun hafi hækkað nokkuð umfram vísitölu neysluverðs og líklega umfram væntingar. Ástæður þessa eru að við setningu raforkulaga varð óheimilt að jafna kostnaði við rafhitun á aðra notendur og að niðurgreiðslur ríkisins hafa ekki vegið upp á móti brottfalli afsláttar orkufyrirtækja og ekki haldið í við þær gjaldskrárhækkanir sem orðið hafa.
Milljarður í niðurgreiðslur
Ráðherra segir ljóst að óánægja með raforkuverð sé einkum hjá þeim sem búa við rafhitun. Ríkissjóður ver nú um 1 milljarði á ári í niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar og segir ráðherra því vert að skoða aðra kosti varðandi húshitun.
Í svarinu segir að kostnaður við húshitun með hitaveitu sé í flestum tilvikum ódýrari kostur og því hafi ýmislegt verið gert til að hvetja til jarðhitaleitar og hitaveituuppbyggingar. Þannig hafi á síðasta ári verið ákveðið að verja 172 milljónum króna til jarðhitaleitar á 29 stöðum umhverfis landið. Einnig hafi verið veittir styrkir til að stofna nýjar hitaveitur og m.a. verið gert sérstakt átak í þeim efnum við afgreiðslu síðustu fjáraukalaga.
Til að auka valkosti við hitun á köldum svæðum enn frekar hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Frumvarpið er nú til þriðju og síðustu umræðu í þinginu en með því skapast möguleikar á að veita styrki til nýrrar og umhverfisvænnar orkuöflunar til húshitunar, svo sem með varmadælum, en sú tæknilausn hefur gefið góða raun þar sem ekki er nægilegur jarðhiti til beinnar notkunar jarðvarma til húshitunar. Þá er einnig ætlunin að veita styrki til endurbóta á húsnæði þar sem húshitunarkostnaður er óeðlilega hár.