Dæmi eru um að skilaboð Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR, til þeirra sem áunnið hafa sér réttindi í sjóðnum hafi ekki komist til skila af einhverjum ástæðum. Sjóðfélagar hafa þess vegna tapað fé sem þeir áttu rétt á.
LSR greiðir fjögur ár aftur í tímann en eldri réttindi fyrnast, að sögn Þóreyjar S. Þórðardóttur, forstöðumanns réttindamála lífeyrissjóðsins.
„Sem betur fer eru þessi mál þar sem sjóðurinn ber fyrir sig fyrningu á gjaldfallinn lífeyri ekki mörg. Helst vildum við að þau kæmu aldrei upp og við reynum þess vegna að koma í veg fyrir þau með því að vekja athygli sjóðfélaga á réttindum til greiðslu þegar sá réttur skapast. Erfiðast hefur verið að finna fólk sem búsett er erlendis og hefur ekki tilkynnt aðsetursskipti til þjóðskrár. Við höfum haft samband við sendiráð og í einstaka tilvikum við Íslendingafélög í viðkomandi löndum í því skyni,“ segir Þórey.
Hún segir ekki haldið sérstaklega utan um hversu háar fjárhæðir fyrnast á hverju ári. „Það er þó ekki um háar fjárhæðir að ræða þar sem einstaklingar sem ekki sækja um lífeyrisgreiðslur eiga yfirleitt lítil réttindi í sjóðnum.“
Lífeyrissjóðurinn hefur nú tekið upp það verklag að senda ítrekun í ábyrgðarpósti til þeirra sem ekki hafa sótt um lífeyrisgreiðslur sem þeir eiga rétt á þrátt fyrir ítrekanir í almennum pósti. Frá og með árinu 2007 hafa bréf verið send árlega til þeirra sem eiga réttindi en bréfin voru áður send á tveggja ára fresti.
Að sögn Þóreyjar áttu við síðustu útsendingu bréfa frá LSR 16 af 89 sjóðfélögum í B-deild og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga réttindi lengra aftur í tímann en fjögur ár og eru þau því farin að fyrnast. Einn af 12 félögum í A-deild sem fengu bréf átti réttindi sem farin voru að fyrnast.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.