Samson greiddi fé til Tortola

Samson eignarhaldsfélag greiddi 580 milljónir króna til félags sem heitir Opal Global Invest og er skráð á Tortola-eyju, lánaði tengdu félagi, Bell Global Lux, 1,5 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í hafnarverkefni í Pétursborg og lánaði félögum í eigu Björgólfs Guðmundssonar 2,5 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins. Auk þess fékk fjárfestingarfélagið Grettir, sem er einnig í eigu Björgólfs, 393 milljóna króna lán.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu skiptastjóra þrotabús Samson sem kynnt var kröfuhöfum í lok febrúar, en félagið var í eigu Björgólfsfeðga. Þar kemur einnig fram að „erfitt hafi reynst að nálgast upplýsingar um sumar þessara greiðslna og þá aðila sem hafa þegið þær, enda í mörgum tilfellum um frekar rýrar upplýsingar að ræða í bókhaldi [...] Þrotabúið hefur ítrekað leitað eftir upplýsingum frá endurskoðanda félagsins varðandi mat þessara eigna í uppgjörum félagsins en eigi fengið svar.“

Af skýrslunni að dæma virðast flestar eignir Samson í dag vera lán til annarra félaga í eigu Björgólfsfeðganna. Þegar Samson óskaði eftir gjaldþrotaskiptum hinn 12. nóvember síðastliðinn lagði félagið fram yfirlit sem sýndi að eignir þess væru rúmlega 172 milljarðar króna. Enn sem komið er hefur tekist að innheimta 2,3 milljarða króna af þeim eignum og heimildir Morgunblaðsins herma að bjartsýnustu menn vonist til að alls náist að innheimta tíu milljarða króna.

Sama verður hins vegar ekki sagt um skuldir félagsins, en alls var lýst kröfum í búið fyrir um 180 milljarða króna. Einhverjum krafnanna var þó lýst oftar en einu sinni og því hafnað. Heimildir Morgunblaðsins herma að raunvirði krafnanna að meðtaldri kröfu Landsbankans vegna XL Leisure Group hafi verið um 120 milljarðar króna. Kaupum Samson á þeirri kröfu hefur nú verið rift og því eru raunkröfur í búið á bilinu 85 til 90 milljarðar króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert