Síld hefur vaðið um Hafnarfjarðarhöfn undanfarnar vikur. Syndir síldin inn og út úr höfninni eftir eigin tiktúrum og hafa sjófarendur lóðað á mjög þykkar torfur innan hafnar sem utan.
Mikið fuglager, mávur, skarfur og aðrir sjófuglar, fylgir síldinni og er það helsta vísbendingin um að torfa sé í höfninni. Einnig fylgja hvalir síldartorfunum og koma þeir stöku sinnum inn í höfnina, en halda sig frekar utan hennar og þá sérstaklega stóru hvalirnir.
Á vef Hafnarfjarðarhafnar segir að talað sé um að fuglinn sé svo vel haldinn að hann eigi í erfiðleikum með að fljúga þegar hann hefur sporðrennt nokkrum gómsætum síldum í röð.
Ekki er talin sérstök hætta stafa af síldinni, þar sem straumar inn og út úr höfninni hreinsa hana nokkuð vel. En það er víðar sem síldin veður inn í hafnir. Vestmannaeyingar hafa undanfarið mokað upp síld í höfninni. Ekki er ljóst hvers vegna síldin veður svo víða inn í hafnir landsins, en rætt hefur verið um að ami eitthvað að, þá syndi síldin í ferskara vatn til að létta sér lífið.