„Tröllasögur um síldargróðann“

Kap á veiðum í Vestmannaeyjahöfn
Kap á veiðum í Vestmannaeyjahöfn mbl.is/Sigurgeir

„Þetta eru einhverjar tröllasögur með að ágóðinn renni allur til ÍBV, við prísum okkur sæla með að andvirði síldarinnar stendur undir kostnaðinum. Tugir manna hafa unnið við þetta,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um síldarhreinsunina í höfninni sem fór aftur af stað um helgina eftir að hafa verið stöðvuð af sjávarútvegsráðuneytinu, samkvæmt ráðgjöf frá Hafró. Gerði ráðuneytið þá kröfu, eftir að heimild var gefin fyrir hreinsuninni á ný, að aflinn yrði eingöngu nýttur til að bera kostnað af þessum sérstæðu veiðum.

Skipið Kap VE frá Vinnslustöðinni var aftur fengið til verksins og naut aðstoðar frá Lóðsinum og björgunarbátnum Þór. Talið er að ríflega 400 tonn hafi náðst upp úr höfninni um helgina. Bætast þau við um 500 tonn sem náðust í fyrstu köstunum, áður en Hafró stöðvaði aðgerðina í bili. Samkvæmt mælingum stofnunarinnar má ætla að enn geti verið 400-500 tonn eftir í höfninni en stór hluti síldarinnar hefur reynst sýktur og töluvert magn legið dautt á botninum.

Að sögn Ólafs M. Kristinssonar hafnarstjóra reyndist erfitt að ná til allrar síldarinnar sem að miklu leyti hefur haldið sig innst í höfninni, í svonefndum pytti í Friðarhöfninni. „Þetta er orðið svo afkróað að veiðarfærin eru orðin of stór. Það gengur illa að fara inn í hornin þar sem síldin er,“ segir Ólafur.

Elliði segir að upphaflega hafi hugmyndin verið sú að ef einhver afgangur yrði af síldargróðanum myndi hann verða látinn renna til samfélagslegra málefna, enda ekki um hefðbundnar veiðar að ræða. „Stærsti samfélagslegi gróðinn af þessu er að við þurfum ekki að ráðast í feikilegan kostnað sem hefði getað orðið ef síldin hefði drepist þarna með tilheyrandi mengun í höfninni,“ segir Elliði bæjarstjóri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka