Nýja Kaupþing segir skilanefnd SPRON bera að fullu ábyrgð á þeirri óvissu sem nú ríkir hjá viðskiptavinum SPRON. Í tilkynningu Nýja Kaupþings segir að fljótt hafi komið í ljós að skilanefndin vildi ekki láta af hendi nauðsynleg gögn til þess að Nýi Kaupþing gæti sinnt útlánaþjónustu fyrir viðskiptavini SPRON. Að kröfu skilanefndarinnar færðist þjónusta vegna útlána viðskiptavina SPRON aftur til nefndarinnar í nótt.
Tilkynning Nýja Kaupþings er eftirfarandi:
Stjórnvöld fóru þess á leit við Nýja Kaupþing laugardaginn 21. mars að allar innstæður viðskiptavina SPRON og nb.is færðust yfir til bankans. Þetta var gert í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur SPRON.
Innstæðurnar sem færðust yfir í Nýja Kaupþing að beiðni stjórnvalda eru í raun skuld bankans við viðskiptavini SPRON. Þar sem innstæður eru forgangskröfur eru allar eignir SPRON að veði fyrir þeirri skuldbindingu sem Nýi Kaupþing tók yfir.
Nýi Kaupþing hefur því talið nauðsynlegt að búið væri að ganga formlega frá skuldabréfi vegna innstæðna áður en farið væri að huga að sölu eigna SPRON. Skilanefnd SPRON hefur ekki virt þessi tilmæli frá bankanum.
Allt frá því beiðnin kom frá stjórnvöldum um að Nýja Kaupþing tæki við innlánum viðskiptavina SPRON hefur bankanum verið umhugað að viðskiptavinir SPRON yrðu fyrir sem minnstum óþægindum. Þjónustuver Nýja Kaupþings var opnað að morgni sunnudagsins 22. mars til að veita viðskiptavinum SPRON upplýsingar og innstæðurnar fluttust yfir samdægurs. mars. Viðskiptavinir SPRON höfðu því strax aðgengi að debet-og kreditkortum sínum, innstæðum og netbönkum SPRON og Nýja Kaupþings.
Nýi Kaupþing hefur einnig það verkefni að sinna greiðsluþjónustu fyrir viðskiptavini SPRON. Til að það gæti gengið hnökralaust var nauðsynlegt að gera samning við skilanefnd SPRON vegna þjónustu útlána viðskiptavina SPRON. Skilanefnd SPRON skrifaði undir þjónustusamninginn miðvikudaginn 25. mars. Aðfararnótt fimmtudags færðust útlánin yfir til Nýja Kaupþings.
Fljótt kom í ljós að skilanefndin vildi ekki láta af hendi nauðsynleg gögn til þess að Nýi Kaupþing gæti sinnt útlánaþjónustu fyrir viðskiptavini SPRON. Þetta olli viðskiptavinum SPRON óþægindum.
Að kröfu skilanefndarinnar færðist þjónusta vegna útlána viðskiptavina SPRON aftur til nefndarinnar. Það var framkvæmt síðastliðna nótt. Viðskiptavinum SPRON er því bent á að leita til skilanefndar SPRON vegna upplýsinga um útlán. Hægt er að beina fyrirspurnum til hennar á skilanefnd@spron.is.
Nýi Kaupþing harmar það rask sem viðskiptavinir SPRON hafa orðið fyrir vegna þessa.
Nýi Kaupþing hefur nú þegar ráðið til sín á annan tug starfsmanna SPRON til þess að sinna sem best þeim verkefnum sem bankinn var beðinn um að sinna.
Skilanefnd SPRON ber því að fullu ábyrgð á þeirri óvissu sem nú ríkir hjá viðskiptavinum SPRON.