Verkefni nýrrar stjórnar að ákveða niðurskurð

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Ómar

„Það verður verk­efni nýrr­ar rík­is­stjórn­ar að út­færa hvernig farið verður í sparnaðar- og aðhaldsaðgerðir í rík­is­fjár­mál­um. Það gef­ur auga leið að það er þörf á því að grípa til um­fangs­mik­illa aðgerða í þeim efn­um,“ sagði Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, sjáv­ar­út­vegs-, land­búnaðar-, og fjár­málaráðherra. Hann seg­ir rík­is­stjórn­ina ekki hafa út­fært niður­skurðaraðgerðir en aug­ljóst sé að þörf sé á því.

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði í umræðuþætt­in­um Zet­an á mbl.is. í gær, að rík­is­stjórn Vinstri grænna og Sam­fylk­ing­ar­inn­ar boðaði ekk­ert annað en „að hækka skatta“ til að mæta þeim vanda­mál­um sem blöstu við í rík­is­fjár­mál­um. Bjarni taldi það ekki ákjós­an­lega leið til þess að ná tök­um á rík­is­fjár­mál­un­um. Sam­kvæmt efna­hags­áætl­un Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins og ís­lenskra stjórn­valda er að því stefnt að rík­is­sjóður verið rek­inn án halla eft­ir árið 2011.

Í ljósi þess að um 150 millj­arða halli var á fjár­lög­um fyr­ir árið í ár blas­ir við mik­ill niður­skurður í fjár­lög­um næsta árs. Stein­grím­ur hef­ur talað um að hann verið lík­lega á bil­inu 35 til 55 millj­arðar. Það jafn­gild­ir áætluðum kostnaði við um 10 til 15 Héðins­fjarðargöng.

Bjarni sagði ljóst að spara mætti með marg­vís­leg­um hætti. Til dæm­is mætti sam­eina yf­ir­stjórn hjá stofn­un­um sem væru í skyld­um rekstri, svo sem hjá Land­læknisembætt­inu og Lýðheilsu­stöð og síðan Neyðarlín­unni, Land­helg­is­gæsl­un­unni og Varn­ar­mála­stofn­un. Þá væri líka hægt að for­gangsraða bet­ur á mörg­um stöðum, þar á meðal er varðaði greiðslu barna­bóta. Búa mætti þannig um hnút­ana að þær yrðu tekju­tengd­ar þannig að þeir sem þyrftu helst á þeim að halda fengju þær en hinir sem gætu án þeirra verið fengju a.m.k. minna í sinn hlut. Sagði Bjarni að í ljósi um­fangs þess­ara greiðslna gætu spar­ast hundruð millj­óna með réttri for­gangs­röðun.

Stein­grím­ur sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið að hann teldi skyn­sam­leg­ast að fara „blandaða leið“ þegar kæmi að því að rétta af rekst­ur rík­is­sjóðs. Nauðsyn­legt væri að hækka skatta að ein­hverju leyti, þá með rétt­lát­um hætti, og einnig að skera niður.

„Það er út af fyr­ir sig at­hygl­is­vert ef Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er að sýna eitt­hvað á spil­in í þess­um efn­um. Ekki veit­ir nú af ef hann ætl­ar að ná þessu fram að öllu leyti með niður­skurði, og lok­ar al­gjör­lega á það að ná upp í gatið með tekju­öfl­un. Þá þarf hann held­ur bet­ur að sýna hvernig hann ætl­ar að ná niður 150 til 170 millj­arða halla á rík­is­sjóði sem hann skil­ur eft­ir sig. Í mín­um huga er al­veg ljóst að fara þurfi í al­menn­ar aðhaldsaðgerðir en það þarf að skoða þessi mál vand­lega og tryggja sem best að fjöl­skyld­ur í land­inu lendi í sem minnst­um vafa.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert