Bílaumboðin B&L og Ingvar Helgason sögðu upp 31 starfsmanni í gær. Uppsagnirnar koma í kjölfar sameiningar allrar þjónustu umboðanna á einum stað, á lóð Ingvars Helgasonar við Sævarhöfða.
„Þetta er einn af þeim þáttum sem við verðum að grípa til vegna kreppunnar. Við eltum niðursveifluna eins langt niður og við þurfum til þess að lifa af,“ segir Loftur Ágústsson, markaðsstjóri Ingvars Helgasonar.
Bílasala hefur dregist gríðarlega saman eftir að kreppan skall á síðasta haust. Fyrstu tvo mánuði þessa árs seldust um 250 bílar, þar af voru 80 seldir úr landi. Á sama tíma í fyrra seldust um 2.500 bílar. Samdrátturinn er um 90%.
Loftur segir að bara það eitt að sameina starfsemina á einum stað í húsnæði við Sævarhöfða sem var að stórum hluta ónýtt, spari um 14 milljónir króna á mánuði eða tæpar 170 milljónir á ári. Þá hefur launakostnaður verið skorinn verulega niður. Starfsmenn beggja bílaumboða voru 260 fyrir ári en eru nú tæplega 130.
„Við ætlum ekkert að gefast upp. Það hefur aldrei komið svo vont veður á Íslandi að ekki hafi stytt upp. Rekstrarlega séð erum við komnir á þann stað að við eigum að geta rekið okkur. En þetta eru erfiðar aðgerðir sem starfsfólk tekur nærri sér,“ segir Loftur Ágústsson, markaðsstjóri Ingvars Helgasonar.