Ævistarfið farið

Helmingssamdráttur í byggingariðnaði, gengisþróun og himinháir vextir hafa reynst Agli …
Helmingssamdráttur í byggingariðnaði, gengisþróun og himinháir vextir hafa reynst Agli Árnasyni hf. ofviða.

„Kringumstæðurnar eru einfaldlega þannig núna að það er ekki hægt að halda áfram. Gengisþróun, vaxtastig og samdráttur í byggingariðnaði, allt leggst þetta á eitt og við verðum að horfast í augu við raunveruleikann. Það eru engar aðgerðir sýnilegar af hálfu stjórnvalda til að hjálpa fyrirtækjum úr þeim vanda sem við blasir. Það virðist ekki mikill skilningur hjá stjórnvöldum á vandanum, hvort heldur er um að ræða heimilin eða fyrirtækin,“ segir Birgir Þórarinsson, stjórnarformaður Egils Árnasonar.

Stjórn fyrirtækisins mun nú upp úr klukkan eitt, óska eftir því að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Lýkur þar með tæplega 75 ára sögu Egils Árnasonar.

Egill Árnason rekur verslanir á Akureyri og í Reykjavík og vinna samtals 22 hjá fyrirtækinu. Starfsmenn voru 43 í upphafi ársins 2008 en hefur verið fækkað um helming. Einhverjum hefur verið boðin vinna hjá Parka, sem er í eigu sömu aðila og eiga Egil Árnason.

Birgir Þórarinsson segir að í 75 ára sögu fyrirtækisins hafi skipst á skin og skúrir. En nú sé ekki útrásinni um að kenna í tilfelli Egils Árnasonar, uppbyggingin hafi öll verið hér innanlands. Eiginfjárstaða fyrirtækisins hafi verið góð og það staðið vel þar til ósköpin dundu yfir.

„Gengisþróunin hefur verið mjög óhagstæð og öll fyrirtæki eru meira eða minna með skuldir í erlendri mynt. Þá hafa vextir verið gríðarlega háir og ofan á allt saman hafa birgjar krafist staðgreiðslu, þar sem Ísland hefur ekki lengur lánstraust. Þessu til viðbótar koma útlánatöp og samdráttur í byggingariðnaði. Ég er búinn að reka þetta fyrirtæki í bráðum 23 ár og það hefur oft verið erfitt. Við höfum haft dygga viðskiptavini og unnið náið með hönnuðum og verktökum og þróast með markaðinum. Auðvitað er þetta erfitt fyrir okkur, maður sér ævistarfið fuðra upp og það tekur í,“ segir Birgir.

Samdrátturinn í byggingargeiranum er 50%, erlendar skuldir hafa tvöfaldast vegna gengisþróunar og vaxtastigið er óviðráðanlegt að sögn Birgis. Fyrirtæki af sömu stærð og Egill Árnason ráði einfaldlega ekki við kringumstæður meðan ekkert komi til frá stjórnvöldum.

„Stjórnvöld verða að skilja að aðalatriðið er vaxtastigið og gengismálin. Þá skiptir ekki síður máli fyrir okkur sem stöndum í atvinnurekstri að bankakerfið virki en það virkar bara ekki í dag. Það á bæði við um aðgengi að lánsfé en ekki síður um ábyrgðir gagnvart erlendum aðilum. Þó við fengjum möguleika á 90 daga greiðslufresti hjá okkar birgjum þá eru ábyrgðir íslensku bankanna ekki teknar gildar, það er ekkert traust á íslensku bankakerfi. Það er herjað á okkur alls staðar. Maður var að vona að gengið myndi styrkjast en raunin varð önnur. Stjórnvöld hefðu átt að grípa inn í, beita handafli. Ég hugsa að flest fyrirtæki hefðu þolað gengisvísitölu í kringum 150 en í dag stendur hún í 210 stigum,“ segir Birgir Þórarinsson.

Eins og áður segir ganga forsvarsmenn Egils Árnasonar á fund héraðsdómara á eftir og óska eftir gjaldþrotaskiptum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert