Bullandi ágreiningur

mbl.is/Kristinn

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það sæta furðu að forystumönnum ríkisstjórnarinnar skuli yfir höfuð detta það í hug á síðustu dögum þingsins að samstaða geti verið um að afgreiða stjórnarskrárfrumvarpið.

„Stjórnarflokkarnir og fylgiflokkar þeirra kvarta afar mikið yfir því að sjálfstæðismenn séu að tefja meðferð þess. Hins vegar gleymist oft í þeirri umræðu að áform stjórnarflokkanna um breytingarnar nú ganga út á að keyra málið í gegn með miklu skemmri aðdraganda og undirbúningi en nokkru sinni fyrr og án pólítísks samráðs auk þess sem afar skammur tími er ætlaður til málsmeðferðar í þinginu,“ segir Birgir.

Hann bendir á að snemma í febrúar hafi verið settur á fót ráðgjafahópur þriggja manna til að undirbúa og útfæra tillögurnar sem ríkisstjórnin var búið að ákveða að leggja fram. Hópurinn hafi skilað endanlegum tillögum í lok febrúar og í byrjun mars hafi frumvarpið verið lagt fram á Alþingi.

Birgir bendir jafnframt á að við stjórnarskrárbreytingarnar 1995 hafi þingflokksformenn allra flokka haft frumkvæði að vinnunni. Aðdragandinn áður en frumvarpið var lagt fram hafi verið margir mánuðir.

„Það var dæmi um hvernig á að breyta stjórnarskrá. Aðferðin nú er dæmi um hvernig ekki á að breyta stjórnarskrá. Stjórnarskrárfrumvarp hefur nú í fyrsta sinn í 50 ár verið afgreitt úr nefnd í bullandi ágreiningi. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins töldum ófært að standa að afgreiðslunni, bæði vegna málsmeðferðar og efnisinnihalds málsins,“ segir Birgir.

Hann tekur það samtímis fram að mörg atriðin séu þess eðlis að hefðu menn gefið sér tíma í aðdraganda og meðferð til þess að setjast yfir málin hefði verið hugsanlegt að ná einhverri niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka