Gagnrýnir áhættu bankanna

Kaarlo Jännäri
Kaarlo Jännäri mbl.is/Árni Sæberg

Innbyggð áhætta í íslenska bankakerfinu var mikil um mitt síðasta ár að mati Finnans Kaarlo Jännäri. Í lok júní á síðasta ári voru stórar áhættur bankanna á einn eða tengda aðila 23 talsins. Það þýðir að áhættuskuldbinding bankanna á hvern þessara viðskiptavina fer yfir tíu prósent af eiginfjárgrunni þeirra. Samtals námu þessar stóru áhættur í hverjum banka frá 94% til 174% af eiginfjárgrunni.

Mest til eignarhaldsfélaga

Jännäri segir það mjög óvenjulegt að bankar á stærð við íslensku viðskiptabankana hafi verið með svo stórar áhættur á einstaka aðila. Að hans mati voru ákvarðanir stjórnenda bankanna að þessu leyti vanhugsaðar. FME hafi verið meðvitað um það og hafið vinnu við að safna ítarlegri upplýsingum um stórar áhættur.

Áhættan getur til dæmis falist í miklum útlánum til einstaklings og fyrirtækja hans. Jännäri segir í skýrslunni það sláandi að áhættan er að stærstum hluta bundin við eignarhaldsfélög sem höfðu það meginmarkmið að fjárfesta í hlutabréfum eða öðrum áhættusömum eignum. Í fáum tilvikum var um að ræða fyrirgreiðslu til rekstrarfélaga. Í flestum tilvikum voru veðin í bréfunum sem keypt voru. Þetta er inntak þess sem meðal annars kemur fram í skýrslu Jännäri, sem ríkisstjórnin fól í nóvember síðastliðnum að leggja mat á lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi og gera tillögur um úrbætur.

Togstreita við FME

Stjórnendur Glitnis, Kaupþings og Landsbankans deildu við Fjármálaeftirlitið (FME) hvernig meta ætti þessar stóru áhættur í bankakerfinu og skilgreina tengda aðila samkvæmt skýrslunni.

Sömuleiðis var togstreita um hversu ítarleg skýrsla um stórar áhættuskuldbindingar bankanna ættu að vera. Bankastjórarnir voru misviljugir til að samþykkja athugasemdir FME en sættust á endanum á að bæta upplýsingagjöf til eftirlitsins.

Í skýrslunni kemur fram að seðlabankastjórum var ekki ljóst hvaða aðilar voru á bak við þessi stóru útlán viðskiptabankanna fyrr en í október 2008 eftir að bankarnir hrundu. Fjármálaeftirlitið hafi ekki gefið upp nöfnin fyrr vegna laga um bankaleynd. Hins vegar var Seðlabankinn með upplýsingar um stórar áhættuskuldbindingar í bankakerfinu almennt og stærð þeirra miðað við eiginfjárgrunn hvers banka fyrir sig.

Ekki var brugðist við ábendingum

Fjármálaeftirlitið óskaði á vormánuðum 2008 eftir svörum frá ríkisstjórninni um hvað hún vildi og gæti gert til að styðja við bankakerfið ef aðstæður myndu þróast á versta veg. Engin skýr aðgerðaáætlun kom út úr þessu. Þetta er meðal þess sem lýst er í skýrslu Kaarlo Jännäri um mat á framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi o.fl., sem kynnt var í fyrradag.

Í skýrslunni kemur fram að sérfræðingur hjá bresku fyrirtæki á sviði áhættustýringar á fjármálamarkaði, Andrew Gracie, hafi verið ráðinn til að veita íslenskum stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum ráðgjöf vegna hugsanlegrar fjármálakreppu. Á fundi í Seðlabankanum í febrúar 2008, þar sem Gracie var meðal fundarmanna, hafi hugsanlegu hruni íslensku bankanna og áhrifum þess á efnahagslífið verið lýst. Einnig hafi verið sýnd hugsanleg hagstæðari útkoma.

Segir í skýrslu Jännäri að niðurstöður Gracie hafi verið sendar ráðgjafarnefnd forsætisráðherra um fjármálastöðugleika, sem komið var á fót í febrúar 2006 og í áttu sæti ráðuneytisstjórar forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyta, seðlabankastjóri og forstjóri FME. Kynning fyrir nefndarmönnum sem og viðkomandi ráðherrum á niðurstöðum Gracie hafi svo verið í mars 2008. Þá segir Jännäri að síðar í marsmánuði hafi Seðlabankinn og FME lagt fram tillögur og spurningar í minnisblöðum til viðkomandi ráðuneyta um hvernig ætti að taka á hugsanlegum vanda á fjármálamarkaði. Reyndar hafi FME lagt fram svipaðar spurningar um miðjan nóvember 2007, bréflega til ráðgjafarnefndar forsætisráðherra. Þá hafi Seðlabankinn og FME sett á fót vinnuhóp til að undirbúa aðgerðaáætlun vegna áhættustýringar. Vinnuhópurinn hafi lagt niðurstöður sínar fyrir fund ráðgjafarnefndarinnar þann 21. apríl 2008.

Skýrsla Jännäris

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert