Innbyggð áhætta í íslenska bankakerfinu var mikil um mitt síðasta ár að mati Finnans Kaarlo Jännäri. Í lok júní á síðasta ári voru stórar áhættur bankanna á einn eða tengda aðila 23 talsins. Það þýðir að áhættuskuldbinding bankanna á hvern þessara viðskiptavina fer yfir tíu prósent af eiginfjárgrunni þeirra. Samtals námu þessar stóru áhættur í hverjum banka frá 94% til 174% af eiginfjárgrunni.
Áhættan getur til dæmis falist í miklum útlánum til einstaklings og fyrirtækja hans. Jännäri segir í skýrslunni það sláandi að áhættan er að stærstum hluta bundin við eignarhaldsfélög sem höfðu það meginmarkmið að fjárfesta í hlutabréfum eða öðrum áhættusömum eignum. Í fáum tilvikum var um að ræða fyrirgreiðslu til rekstrarfélaga. Í flestum tilvikum voru veðin í bréfunum sem keypt voru. Þetta er inntak þess sem meðal annars kemur fram í skýrslu Jännäri, sem ríkisstjórnin fól í nóvember síðastliðnum að leggja mat á lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi og gera tillögur um úrbætur.
Sömuleiðis var togstreita um hversu ítarleg skýrsla um stórar áhættuskuldbindingar bankanna ættu að vera. Bankastjórarnir voru misviljugir til að samþykkja athugasemdir FME en sættust á endanum á að bæta upplýsingagjöf til eftirlitsins.
Í skýrslunni kemur fram að seðlabankastjórum var ekki ljóst hvaða aðilar voru á bak við þessi stóru útlán viðskiptabankanna fyrr en í október 2008 eftir að bankarnir hrundu. Fjármálaeftirlitið hafi ekki gefið upp nöfnin fyrr vegna laga um bankaleynd. Hins vegar var Seðlabankinn með upplýsingar um stórar áhættuskuldbindingar í bankakerfinu almennt og stærð þeirra miðað við eiginfjárgrunn hvers banka fyrir sig.
Í skýrslunni kemur fram að sérfræðingur hjá bresku fyrirtæki á sviði áhættustýringar á fjármálamarkaði, Andrew Gracie, hafi verið ráðinn til að veita íslenskum stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum ráðgjöf vegna hugsanlegrar fjármálakreppu. Á fundi í Seðlabankanum í febrúar 2008, þar sem Gracie var meðal fundarmanna, hafi hugsanlegu hruni íslensku bankanna og áhrifum þess á efnahagslífið verið lýst. Einnig hafi verið sýnd hugsanleg hagstæðari útkoma.
Segir í skýrslu Jännäri að niðurstöður Gracie hafi verið sendar ráðgjafarnefnd forsætisráðherra um fjármálastöðugleika, sem komið var á fót í febrúar 2006 og í áttu sæti ráðuneytisstjórar forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyta, seðlabankastjóri og forstjóri FME. Kynning fyrir nefndarmönnum sem og viðkomandi ráðherrum á niðurstöðum Gracie hafi svo verið í mars 2008. Þá segir Jännäri að síðar í marsmánuði hafi Seðlabankinn og FME lagt fram tillögur og spurningar í minnisblöðum til viðkomandi ráðuneyta um hvernig ætti að taka á hugsanlegum vanda á fjármálamarkaði. Reyndar hafi FME lagt fram svipaðar spurningar um miðjan nóvember 2007, bréflega til ráðgjafarnefndar forsætisráðherra. Þá hafi Seðlabankinn og FME sett á fót vinnuhóp til að undirbúa aðgerðaáætlun vegna áhættustýringar. Vinnuhópurinn hafi lagt niðurstöður sínar fyrir fund ráðgjafarnefndarinnar þann 21. apríl 2008.