Ungur blaðamaður frá Balkanskaga hefur verið í hungurverkfalli í tæpar tvær vikur á gistiheimili hælisleitenda í Reykjanesbæ, en hann vill með þessu móti mótmæla því að hann hafi ekki fengið bráðabirgðaatvinnuleyfi á meðan hælisumsókn hans er til meðferðar.
Atli Viðar Thorstensen, sem hefur umsjón með verkefnum tengdum hælisleitendum og flóttamönnum hjá Rauða krossi Íslands, segir að maðurinn, sem er 24 ára, hafi komið til landsins ásamt eiginkonu sinni síðastliðið sumar. Rauði krossinn hefur verið í samskiptum við hjónin frá því þau komu til landsins. Maðurinn varð fyrir ofsóknum í heimalandi sínu vegna fréttaskrifa.
„Þetta tekur auðvitað á hann og við höfum miklar áhyggjur af honum,“ segir Atli spurður um líðan mannsins. Hann segir jafnframt að maðurinn drekki vökva, þ.e. salt- og sykurvatn.
Atli segir að Útlendingastofnun hafi úrskurðað í september sl. að vísa fólkinu úr landi. Hælisleitendurnir hafi hins vegar leitað til lögmanns og kært úrskurðinn. Málið er nú á borði dómsmálaráðuneytisins.
Atli bendir á að lítið sé í boði fyrir hælisleitendur á meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. „Það hefur verið mjög takmarkaður aðgangur hælisleitenda að íslenskunámi, menntun og atvinnumarkaði. Og nú virðist atvinnumarkaðurinn vera miklu erfiðari en hann var. Og erfiðara að fá atvinnuleyfi. Eins og hann bendir á þá var honum synjað. Fyrir hálfu ári hefði þessi umsókn líklega verið samþykkt,“ segir Atli.
Vanlíðan og þunglyndi fylgifiskur óvissunnar
„Það sem fólk er að horfa upp á hvern einasta dag, og viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, er fullkomið aðgerðaleysi ofan í mikla óvissu og kvíða sem fólk býr við. Þetta magnar auðvitað upp vanlíðan og þunglyndi er algengur fylgifiskur fólks sem býr við svona aðstæður í langan tíma,“ segir Atli.
Á bilinu 25 til 30 einstaklingar eru nú í hælismeðferð á Íslandi og er fólkið á öllum aldri. Atli tekur fram að staða fólksins sé ólík. Hann bendir á að börn og ungmenni séu flest í námi, en hvað varði fullorðið fólk þá sé þetta mjög erfiður tími.
Styttri málsmeðferðartími
Atli tekur hins vegar fram að málsmeðferðartíminn sé að styttast hjá Útlendingastofnun. Það sé jákvætt og breyting til batnaðar. Rauði krossinn, bæði hér á landi og í Evrópu, hafi þrýst mjög á að málsmeðferðartíminn verði styttur eins og kostur sé. Það megi hins vegar ekki koma niður á gæðum málsmeðferðarinnar.
Þá segir Atli að á síðast ári hafi verið veitt fleiri dvalarleyfi en mörg undanfarin ár. Sjö hælisleitendur hafi fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum og einn sem hafi fengið stöðu flóttamanns.