Höfð var hliðsjón af gjaldþrotum einstaklinga árin 2006 og 2007, þegar þörfin fyrir greiðsluaðlögun var metin, að sögn Ásu Ólafsdóttur, aðstoðarmanns dómsmálaráðherra. „Árið 2006 voru þau 130, árið 2007 voru þau 150 og í lok september 2008 voru þau orðin 132 talsins.“ Hún tekur undir að ástandið hafi versnað síðan og því verði grannt fylgst með gangi mála.
„Það eru einnig talsvert þröng skilyrði fyrir því hverjir munu komast í þetta,“ segir hún. Gert er ráð fyrir að hámarksborgun til umsjónarmanns greiðsluaðlögunar verði 200 þúsund krónur. Þetta vekur spurningar um hvort ekki sé hætta á að áætlanir um fjárveitingar bregðist komi í ljós vanmat á fjöldanum. Ása bendir á að skv. lögunum sé ráðherra heimilt að fela sýslumönnum eða opinberri stofnun umsjón með nauðasamningi um greiðsluaðlögun, sem hafi ekki jafn mikinn kostnað í för með sér.